Vilja áfram eiga aðild að stjórn lífeyrissjóða

Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri SA.
Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri SA.

Samtök atvinnulífsins telja það ekki jákvætt skref að samtökin hætti að tilnefna menn í stjórn lífeyrissjóðanna. Með samstilltu átaki atvinnurekenda og verkalýðshreyfingarinnar hafi tekist að byggja upp öflugt kerfi á undanförnum áratugum.

Í niðurstöðukafla skýrslu nefndar sem rannsakaði lífeyrissjóðina segir: „Óeðlilegt virðist að eigendur lífeyrissjóðanna (sjóðfélagar) eigi almennt ekki fulltrúa í stjórnum sjóðanna og hafi enga aðkomu að því hverjir sitji þar.

Úttektarnefndin leggur til að lífeyrissjóðir á almennum markaði og opinberum móti sér þá stefnu að einn eða fleiri stjórnarmenn séu kosnir beinni kosningu á ársfundi lífeyrissjóðsins. Fimm árum héðan í frá verði reynslan af þessu fyrirkomulagi metin og athugað verði hvort lengra skuli haldið.“

Fram kemur í fréttabréfi Samtaka atvinnulífeins að þau telji að aðild þeirra að stjórnum lífeyrissjóða hafi verið til góðs fyrir uppbyggingu lífeyrissjóðanna og skipt sköpum við að efla þá til þess að gegna hlutverki sínu. Almennt séð er íslenska lífeyrissjóðakerfið talið eitt það besta í alþjóðlegum samanburði og eitt af því sem Ísland getur státað sig af í samfélagi þjóðanna. Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, segir í nýju fréttabréfi SA samtökin leggja ofurkapp á að fulltrúar þeirra í stjórnum sjóðanna gæti almennra hagsmuna sjóðanna sjálfra og vinni af fullum heilindum fyrir þá sem njóta lífeyrisréttinda og allt samfélagið.

Hann bendir á að með samstilltu átaki atvinnurekenda og verkalýðshreyfingarinnar hafi verið byggt upp öflugt kerfi á undanförnum áratugum sem byggi á samkomulagi þessara aðila í almennum kjarasamningum. Ef aðkoma SA að stjórnum lífeyrissjóða sé afþökkuð með lagasetningu eða á annan hátt hljóti hlutverki vinnumarkaðarins og kjarasamninga að vera lokið í rekstri og uppbyggingu lífeyrisjóðanna. „Þá munu íslensk fyrirtæki líta á framlög í lífeyrissjóði sem hvern annan skatt en ekki umsamdar greiðslur til mikilvægra sameiginlegra verkefna með starfsfólki sínu og samtökum þess. Þá liggur beinast við að ríkið hafi forystu um þróun lífeyrissjóðakerfisins.“

Fréttabréf SA

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert