Fleiri vilja aukið íbúalýðræði

Áhugi á auknum tengslum kjósenda við fulltrúa sína hefur aukist mikið á sveitarstjórnarstiginu á umliðnum árum, og raunar einnig upp á síðkastið á landsmálastiginu. Í niðurstöðum könnunar sem unnin var fyrir innanríkisráðuneytið kemur fram að áhuginn sé heldur að aukast meðal stjórnmálamanna heldur en hitt.

Könnunin var gerð meðal sveitarstjórnarmanna og alþingismanna haustið 2011 og unnin fyrir innanríkisráðuneytið að frumkvæði nefndar um eflingu sveitarstjórnarstigsins. Úrtakið var 618 manns og svarhlutfall 54,4%. Hliðstæð könnun fór fram árið 2006.

Í fyrstu var spurt hvort talið væri æskilegt að tíðka íbúakosningar í auknum mæli. Almennt fékk það góðan hljómgrunn en um 65% þeirra sem svöruðu voru frekar eða mjög sammála því að fjölga íbúakosningum. Aðeins fimmtán prósent voru mótfallin því. Í könnuninni segir, að þó hartnær helmingur, eða 46%, sé ekki meira en frekar sammála megi segja að aukin aðkoma kjósenda að ákvörðunum með slíkum kosningum eigi sér mikinn og almennan hljómgrunn.

Þá kemur fram að þingmenn eru afgerandi mest hlynntir fleiri íbúakosningum en hins vegar virðist ekki skipta máli hversu stór sveitarfélögin eru þegar afstaða er tekin. Þó var ansi hátt hlutfall hlutlausra í stærstu sveitarfélögunum, eða 27%.

Þá var spurt út í það hversu mikil völd skuli felast í slíkum kosningum, og almennt voru svarendur á þeirri skoðun að íbúakosningar eigi einungis að vera ráðgefandi, eða um sextíu prósent. Um fjórðungur vildi þó gefa slíkum kosningum meira vægi.

Athygli vekur að það eru frekar sveitarstjórnarmenn í minni sveitarfélögum, sérstaklega með undir eitt þúsund íbúa, sem eru tregari til að gefa íbúakosningum bindandi vægi. Þá eru þingmenn nánast á öndverðum meiði við sveitarstjórnarmenn, hartnær 2/3 þeirra eru því ósammála um að íbúakosningar ættu einungis að vera ráðgefandi.

Niðurstöður könnunarinnar voru kynntar á málþingi um eflingu sveitarstjórnarstigsins á Akureyri í gær. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert