Mannréttindi alltaf í fyrsta sæti

Ögmundur Jónasson
Ögmundur Jónasson

Ögmundur Jónasson, innanríkis- og mannréttindaráðherra Íslands, segir það vel koma til greina að skoða með hvað hætti Ísland geti beint spjótum sínum að mannréttindabrotum í Aserbaídsjan í kjölfar Evróvisjónkeppninnar.

„Ég hef ekki myndað mér skoðun á því hvort Ísland eigi að draga sig úr keppninni í ár. Mál sem þessi eru ekki ný af nálinni og hafa komið upp áður, meðal annars þegar Ólympíuleikarnir voru haldnir Sovétríkjunum á sínum tíma,“ segir Ögmundur. „Þá voru uppi andstæð sjónarmið, þ.e. að sniðganga keppnina eða nýta hana til þess að varpa ljósi á mannréttindabrot. Ríki þar sem mannréttindi eru bágborin þola illa kastljós heimspressunnar í kringum svona viðburði.“

Ögmundur telur að Ísland geti til dæmis í samráði við önnur norræn ríki beitt sér í að varpa ljósi á mannréttindabrot í Aserbaídsjan, hvort sem Ísland tekur þátt í keppninni eða ekki. Hann mun því taka málið til skoðunar og sjá hvað íslensk stjórnvöld geti gert. Mannréttindi verði alltaf í fyrsta sætinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka