Landvörður á hálendinu norðan Vatnajökuls fann stórt og dökkt fiðrildi þar síðastliðið sumar. Talið var í fyrstu að um aðmírálsfiðrildi væri að ræða en þegar myndir af fiðrildinu bárust Náttúrustofunni var ljóst að þarna var eitthvað allt annað og mun sjaldgæfara.
Fiðrildið var greint til tegundarinnar Maniola jurtina og fékkst staðfesting á því frá Erling Ólafssyni, skordýrafræðingi Náttúrufræðistofnunar Íslands. Ekkert íslenskt heiti er til fyrir tegundina.
Frá þessu segir á vefsíðu Náttúrustofu Norðausturlands.
Þar segir að Maniola jurtina sé með algengustu fiðrildum í Evrópu sunnan 62. breiddarbaugs og nái útbreiðslan austur til Úralfjalla og suður til nyrsta hluta Afríku.
„Það er mun stærra en þær tegundir fiðrilda sem lifa á Íslandi og getur vænghafið orðið allt að 6 cm. Grunnliturinn er brúnn en ofan á fremri vængjum eru gul svæði með svörtum „augum“ með hvítum bletti í. Tegundin er nokkuð breytileg þar sem magn gula litarins er mismikið. Karldýrin eru dauflitari en kvendýrin.“
Fréttin á vefsíðu Náttúrustofu Norðausturlands.