Ulker Gasanova sem fluttist til Íslands frá Aserbaídsjan árið 2001 með móður sinni, Sevil Gasanova, er ekki sátt við málflutning Páls Óskars vegna undirbúnings Evróvisjónkeppninar sem fer fram í Aserbaídsjan í ár.
Ulker segir fréttaflutning vera rangan og að Páll Óskar fari ekki með rétt mál þegar hann fullyrðir að stjórnvöld hafi hrakið fólk frá heimilum sínum til að byggja Kristalshöllina þar sem keppnin á að fara fram.
„Páll Óskar fullyrðir eins og hann sé staddur í Aserbaídsjan. Það er rangt hjá honum að fólki sé hrakið burt úr húsum sínum til að hægt verði að byggja Kristalshöllina. Það hafa aldrei verið hús á þessu svæði. Þá hefur BBC dregið upphaflegu fréttina sína til baka vegna málsins,“ segir Ulker.
Hún segir ættingja sína í Aserbaídsjan vera hissa á þessum málflutningi á Íslandi enda hafi ekkert verið um þessar ásakanir í fréttum í Aserbaídsjan og enginn að tala um þetta mál þar.
Víða pottur brotinn
Aserbaídsjan er talið meðal spilltustu ríkja heims og er í 143. sæti lista yfir gegnsæi í stjórnarháttum. Auk þess hefur landið verið gagnrýnt fyrir skort á tjáningarfrelsi, félagafrelsi og réttindum samkynhneigðra. Það er því víða pottur brotinn í mannréttindamálum Aserbaídsjan.
„Mikill meirihluti þjóðarinnar er múslímar og í íslam er samkynhneigð ekki leyfð. Páll Óskar gerir sér kannski ekki grein fyrir því. Sjálf kann ég ekkert illa við samkynhneigða og mér finnst það leiðinlegt að þetta skuli vera svona en svona er þetta þarna úti, því miður. Lönd eins og Rússland og Úkraína hafa tekið þátt í keppninni ár eftir ár og eina sem heyrðist frá Páli Óskari þegar Rússland hélt keppnina var hvað söngvari Rússa væri sætur.“
Ulker bendir einnig á að í ár eigi að halda stóra gleðigöngu í Aserbaídsjan og að mannréttindamál séu að þokast í rétta átt í landinu. Henni finnst það ekki rétt að ætla sér núna fyrst að setja út á mannréttindi í Aserbaídsjan þegar önnur lönd sem einnig hafa verið gagnrýnd fyrir skort á mannréttindum taki þátt í keppninni og hafi haldið hana, m.a. Rússland þar sem samkynhneigð er litin miklu hornauga, meðal annars af stjórnvöldum.