Þegar Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, kemur aftur til landsins síðdegis í dag hafa þrír ráðherrar gegnt starfi forsætisráðherra á einum sólarhring.
Jóhanna hélt utan til Stokkhólms á mánudag til að taka þátt í leiðtogafundi forsætisráðherra níu ríkja norðanverðrar Evrópu. Hún er væntanleg aftur til landsins síðdegis í dag.
Í fjarveru hennar gegndi Steingrímur J. Sigfússon, ráðherra efnahags, viðskipta, landbúnaðar og sjávarútvegs, starfi forsætisráðherra. Hann fór hins vegar sjálfur til Bretlands síðdegis á miðvikudag.
Því tók Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, við skyldum forsætisráðherra þegar Steingrímur fór af landinu og þar til í gærkvöldi þegar hann kom aftur heim frá Bretlandi. Þá tók Steingrímur aftur að sér að leysa forsætisráðherra af og gegnir hann þeim störfum þar til síðdegis í dag þegar Jóhanna kemur heim frá Stokkhólmi.