Lilja Mósesdóttir, formaður stjórnmálaflokksins Samstöðu segir að átta félög hafi verið skráð í fyrirtækjaskrá undir nafninu Samstaða. Eitt af þeim var stjórnmálaafl á landsvísu sem breytti nafni sínu til að Samstaða Lilju gæti fengið nafn sitt.
Þetta segir Lilja á samskiptavefnum Facebook. Hún segir að þær upplýsingar hafi fengist frá embætti Ríkisskattstjóra að enginn hafi einkarétt á orðinu samstaða. „Auk þess heitum við ekki bara „Samstaða“ heldur „SAMSTAÐA - flokkur lýðræðis og velferðar“ og því gerði RSK ekki athugasemd við skráninguna. Við munum héðan í frá leitast við nota sjálf alltaf fullt nafn stjórnmálaflokks okkar, enda leggjum við mikla áherslu á að flokkurinn berjist fyrir lýðræði og öflugu velferðarkerfi.“