Fréttaskýring: Evrópusambandið kynnir sig sjálft

Fánar Evrópusambandsins fyrir utan höfuðstöðvar framkvæmdastjórnar sambandsins í Brussel.
Fánar Evrópusambandsins fyrir utan höfuðstöðvar framkvæmdastjórnar sambandsins í Brussel. Reuters

Sérstök upplýsingaskrifstofa um Evrópumál, sem fengið hefur heitið Evrópustofa, var opnuð við Suðurgötu í Reykjavík í síðasta mánuði en markmið hennar er að miðla hlutlægum upplýsingum til Íslendinga um Evrópusambandið og kosti og galla þess fyrir Ísland að ganga í sambandið vegna umsóknar íslenskra stjórnvalda um inngöngu sem send var sumarið 2009 og umsóknarferlisins sem verið hefur í gangi síðan.

Starfsemi Evrópustofu er fjármögnuð af Evrópusambandinu líkt og komið hefur fram en gert er ráð fyrir því að 700 þúsund evrum verði varið til verkefnisins, eða um 113 milljónum króna, en að hámarki tvöföld sú upphæð eða 1,4 milljónir evra. Þá er gert er ráð fyrir því að verkefnið standi í ár með möguleika á framlengingu í jafnlangan tíma samkvæmt útboðsgögnum Evrópusambandsins vegna verkefnisins sem mbl.is hefur undir höndum.

Í samtali við Morgunblaðið í tilefni af opnun Evrópustofu í 21. janúar síðastliðinn sagði Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri hennar, meðal annars að einnig stæði til að opna útibú á Akureyri á næstu mánuðum. Þá væri einnig stefnt að því að hefja heimsóknir í alla helstu bæi landsins í þessum mánuði með fulltrúum sendinefndar Evrópusambandsins á Íslandi.

Stýrt af framkvæmdastjórn ESB

Rekstur Evrópustofu var boðinn út árið 2010 og var tilkynnt á síðasta ári að þýska almannatengslafyrirtækið Media Consulta og íslenska almannatengslafyrirtækið Athygli hefðu fengið verkefninu úthlutað, en það er starfrækt í tengslum við svonefnda IPA-áætlun fyrir Ísland eins og til að mynda kemur fram í útboðsgögnunum. Markmið IPA-áætlunarinnar er að undirbúa landið fyrir inngöngu í Evrópusambandið með því meðal annars að koma á nauðsynlegum stjórnsýslubreytingum hér á landi en sambandið hyggst leggja á fimmta milljarða króna til verkefna tengdra henni.

Fram kemur í útboðsgögnunum að upplýsingamiðlun Evrópustofu um Evrópusambandið verði stýrt af framkvæmdastjórn sambandsins. Þar segir að í því skyni að ná markmiði verkefnisins þurfi „verktakinn að tryggja framboð og aðgengi að hlutlægum, skýrum og gagnlegum upplýsingum um Evrópusambandið undir stjórn framkvæmdastjórnar sambandsins til allra sviða íslensks samfélags að hluta til með því að koma á fót og reka upplýsingamiðstöð [það er Evrópustofu].“

Ennfremur kemur fram í útboðsgögnunum að verktakinn, það er Media Consulta og Athygli, skuli aðstoða framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og sendiráð sambandsins hér á landi við að framfylgja samskiptaáætlun framkvæmdastjórnarinnar (e. Commission's communication strategy) meðal annars í gegnum fjölmiðla, net- og samskiptamiðla, útgáfustarfsemi og fundahöld og ennfremur með rekstri upplýsingamiðstöðvar.

Áhersla á að allir hagnist á stækkun ESB

Fjallað er um samskiptaáætlun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins vegna stækkunar þess í skýrslu á vegum sambandsins frá 2002 og settar fram leiðbeiningar í þeim efnum til framtíðar. Þar er meðal annars lögð áhersla á mikilvægi slíkrar áætlunar „til þess að halda almennum borgurum í ESB og í umsóknarríkjunum upplýstum, tryggja þátttöku þeirra í umsóknarferlinu og afla stuðnings þeirra.“

Ennfremur kemur fram í skýrslunni að tilgangur samskiptaáætlunarinnar sé að útskýra stækkun Evrópusambandsins og kosti hennar fyrir borgurum ríkja sambandsins og umsóknarríkjanna. „Hún leggur meðal annars áherslu á að allir þátttakendur muni hagnast á ferlinu þar sem það sameini Evrópu og breiði út frið, velmegun og öryggi um alla álfuna“, segir í skýrslunni.

Þá kemur fram í skýrslunni að ábyrgðin á framkvæmd samskiptaáætlunarinnar liggi að miklu leyti hjá sendifulltrúum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í viðkomandi umsóknarríki. Þeim beri í því sambandi að koma á fót samstarfi við upplýsingaveitur, frjáls félagasamtök og opinberar stofnanir innan ríkisins. Framkvæmdastjórnin samræmi framkvæmd áætlunarinnar meðal annars með því að framleiða upplýsingaefni til notkunar í tengslum við hana.

Markmiðið að tryggja stuðning

Í upplýsingabæklingi framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um stækkunarmál þess „Understanding Enlargement“, sem síðast var gefinn út í júlí síðastliðið sumar, segir að til þess að stækkun sambandsins geti orðið árangursrík sé „nauðsynlegt að tryggja stuðning almennra borgara bæði í ríkjum Evrópusambandsins og umsóknarríkjum og mögulegum umsóknarríkjum. Það er mikilvægt að koma betur á framfæri árangrinum af og áskorunum stækkunar í því skyni að afla stuðnings almennings og gera það að sameiginlegu verkefni að stækka saman.“

Að sama skapi segir til að mynda í viðræðuramma Evrópusambandsinsþýðingu  utanríkisráðuneytisins) vegna umsóknar Íslands um inngöngu í sambandið að samhliða „aðildarviðræðunum mun Evrópusambandið halda áfram pólitísku samráði og skoðanaskiptum um borgaralegt samfélag við Ísland í því augnamiði að efla samstöðu og tryggja stuðning borgaranna við aðildarferlið.“ Hafa ber í huga í því sambandi að aðildarferlið frá sjónarhóli Evrópusambandsins nær frá því að umsókn er send inn um inngöngu í sambandið og þar til viðkomandi ríki verður formlega hluti þess.

Miðað við þau gögn frá Evrópusambandinu sem vísað er til hér að framan er erfitt að sjá að markmiðið með samskiptaáætlun framkvæmdastjórnar sambandsins gagnvart Íslandi og reksturs Evrópustofu sé að fjalla með hlutlægum hætti um Evrópumálin hér á landi. Á hinn bóginn er skýrt tekið fram að Evrópusambandið sjálft sé við stjórnvölinn og að markmiðið sé að tryggja stuðning almennings við aðildarferlið og þar með við inngöngu í sambandið.

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, á blaðamannafundi í Brussel í desember 2011 …
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, á blaðamannafundi í Brussel í desember 2011 vegna umsóknar Íslands um inngöngu í Evrópusambandið. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert