Samþykkt var á 37. þingi Sambands ungra framsóknarmanna (SUF) í morgun að aðildarviðræðum við Evrópusambandið yrði hætt og umsókn Íslands um aðild að sambandinu dregin til baka.
Samkvæmt heimildum mbl.is var sú stefna samþykkt með miklum meirihluta atkvæða fundarmanna. Orðrétt var eftirfarandi stefna samþykkt: „SUF vill að aðildarviðræðum við ESB verði hætt og umsókn Íslands verði dregin til taka.“
Undanfarin ár hefur SUF lýst stuðningi við að sótt væri um inngöngu í ESB að undanskildu síðasta þingi sambandsins þegar ákveðið var að láta málið liggja á milli hluta. Því er um verulega stefnubreytingu að ræða af hálfu SUF.
Þing SUF fer að þessu sinni fram á Egilsstöðum og stendur kosning formanns og stjórnar sambandsins nú yfir.