Stofnfundur Breiðfylkingarinnar hófst á hádegi en að henni standa Borgarahreyfingin, Frjálslyndi flokkurinn, Hreyfingin og einstaklingar úr stjórnlagaráði. Í kjarnastefnu fylkingarinnar segir að leysa verði skuldavanda heimilanna og efla siðferði í stjórnmálum.
Kjarnastefnan verður lögð fyrir stofnfundinn og um hana greidd atkvæði. Í henni segir meðal annars að fylkingin sé sammála um að leysa verði skuldavanda heimilanna með róttækum hætti og bæta aðstöðumun almennings gagnvart fjármálavaldinu. Leita skuli lausna á forsendum lántakandans frekar en lánveitandans. „Við viljum tafarlaust afnám verðtryggingar á neytendalánum og almenna leiðréttingu húsnæðislána. Þá viljum við að lágmarks framfærsluviðmið verði lögfest. Við viljum berjast fyrir því að vextir í landinu verði hóflegir."
Þá segir að fylkingin sé sammála um nauðsyn þess að ný stjórnarskrá fólksins komi sem allra fyrst til þjóðaratkvæðis.
Einnig að efla þurfi siðferði og gegnsæi í stjórnmálum, stjórnsýslu og fjármálakerfinu. Nauðsynlegt er að þessir aðilar vinni eftir skýrum siðareglum. Lög verði yfirfarin með því markmiði að fyrirbyggja spillingu og herða viðurlög við henni. Komið verði í veg fyrir óeðlileg völd sérhagsmunaaðila og skilið á milli stjórnmála og viðskiptalífs.
Hins vegar virðist ekki ríkja samstaða um Evrópusambandið. Í stefnunni segir að fylkingin vilji að aðildarviðræður verði kláraðar og niðurstaðan borin undir þjóðaratkvæði. Hins vegar var lögð fram breytingartillaga við stefnuna sem einnig verður borin undir stofnfundinn. Í breytingatillögunni segir að skiptar skoðanir séu um aðildarviðræður, en á meðan þeim sé haldið áfram eigi að leggja áherslu á opið og lýðræðislegt ferli.
Í greinargerð með breytingatillögunni segir að ástæðan fyrir henni sé að ekki megi túlka það sem svo að Breiðfylkingin sé með inngöngu að Evrópusambandinu.