„Æ, þegiðu“

Steingrímur J. Sigfússon
Steingrímur J. Sigfússon mbl.is/Skapti

Að loknum óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag steig Sigurður Ingi Jóhannsson, þingmaður Framsóknarflokks, í ræðustól og kom með athugasemd varðandi fundarstjórn þingforseta.

Honum þótti þingforseti hafa tekið heldur vægt á Steingrími J. Sigfússyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, þegar hann sagði Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Framsóknarflokksins, að þegja er hann steig úr pontu. Sigmundur Davíð hafði spurt ráðherrann út í afstöðu hans til Evrópumála.

„Þegar formaður Framsóknarflokksins ræddi við Steingrím J. Sigfússon, þá leyfðist þeim ráðherra að vera hér með frammíköll á borð við „þegiðu“ og „drullist þér nú til“,“ sagði Sigurður Ingi og ítrekaði að slík framkoma teldist vart til sóma.

Að hans mati hefði átt að taka harðar á frammíköllum ráðherrans en Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, bað þingmenn að gæta orða sinna.

Nokkru síðar steig Einar K Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, í pontu og tók undir ummæli Sigurðar Inga. Bætti hann við að menn ættu að biðjast afsökunar á ummælum sem þessum, teldu þeir ástæðu til þess.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert