Myndbandið af „Lagarfljótsorminum“ sem hefur farið sigurför um heiminn hefur vakið margar kenningar um hvað þarna kunni að vera á ferð. DiscoveryNews telur sig hins vegar hafa leyst gátuna.
Um þrjár milljónir manna hafa horft á myndbandið á YouTube. Benjamin Radford segir í grein á vefsíðu DiscoveryNews að margar kenningar hafi verið settar fram um hvað þarna sé á ferð. Sumir trúi því að þarna hafi dýr verið á ferð. Aðrir segi að snjall tölvumaður hafi falsað myndina.
Í greininni er bent á að myndskeiðið virðist sýna snák synda í vatninu. Snákar séu hitabeltisdýr. Þeir séu með kalt blóð og þess vegna reyni þeir stundum að komast í sólarljós snemma á morgnana til að hita sig upp.
Það sem margir hafa furðað sig á er að „dýrið“ virðist synda á móti straumnum og það telja sumir sanna að þarna sé lifandi vera á ferð.
Miisa McKeown, sem býr í Finnlandi, segir í samtali við DiscoveryNews að það sem sé mest heillandi við myndbandið sé hvernig „dýrið“ hreyfi sig í vatninu. Þegar hún hafi áttað sig á hversu mikið rennsli var á vatninu hafi hún séð að vatnsrennslið gæti auðveldlega skapað þá hreyfingu sem er á hlutnum í vatninu.
Í greininni er vitnað í Hjört E. Kjerúlf, sem tók myndbandið. Hann fullyrðir að hann hafi ekki verið að búa þetta til eða falsa myndir. Hann hafi séð hreyfingu í vatninu þar sem hann sat í eldhúsinu heima hjá sér og var að drekka kaffi. Hann hafi síðan hugsað með sér að það væri sniðugt að taka mynd af þessu og fór því af stað með myndavél eftir að hafa klárað úr kaffibollanum. Hjörtur tók fram að hann hefði sjálfur aldrei haldið því fram að þetta væri Lagarfljótsormurinn.
Radford segir að þessi frásögn segi okkur að hluturinn í vatninu hafi færst lítið eða ekkert úr stað meðan Hjörtur kláraði úr bollanum. Þetta bendi til að það sem þarna sé á ferðinni sé einhver dauður hlutur eins og fiskinet, dúkur eða eitthvað slíkt sem hafi fest sig í steini eða einhverju öðru sem liggi á botni vatnsins.
Þess má að lokum geta að Oddur Sigurðsson jarðfræðingur hefur sagt að það sem Hjörtur tók mynd af sé girðingardræsa sem dragi á eftir sér íshröngl. Þegar ísa leysir nær vatnið stundum að brjóta niður girðingar.