Það gæti reynst flóknara en virðist í fyrstu fyrir sveitarfélagið Norðurþing að kaupa jörðina Grímsstaði á Fjöllum, með láni frá Huang Nubo, til að endurleigja honum. Greint var frá því í síðustu viku, að sá möguleiki væri nú kominn upp.
Í sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011 sem tóku gildi nú um áramót er í 7. gr. kveðið á um skyldu sveitarfélaga til að annast lögbundin verkefni og að [innaríkis]ráðuneytið muni árlega gefa út leiðbeinandi yfirlit yfir lögmælt verkefni þeirra. Greinin er nýmæli og slíkt rit hefur ekki verið gefið út ennþá.
Norðurþing þarf því að hafa í huga hvernig kaup á jörð falla inn í þann lagaramma sem sveitarfélögum er settur. Þeim er til dæmis ekki skylt að eiga jarðir. Fjárfesting sem þessi getur einnig talist áhættufjárfesting og því er sveitarstjórninni skv. 66. gr. laganna skylt að meta áhrif hennar á fjárhag sveitarfélagsins.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir, að séu lögin og lögskýringargögn skoðuð áfram komi í ljós að heimildir sveitarfélaga til að ganga í ábyrgðir fyrir lánum hafi verið þrengdar.