Sóknargjöld lækka með samþykkt

Sóknargjöld hafa lækkað á undanförnum árum.
Sóknargjöld hafa lækkað á undanförnum árum. Morgunblaðið/Eggert

Verði frumvarp innanríkisráðherra um breytingar á lögum um skráð trúfélög samþykkt má telja líkur á að einstaklingum sem ríkissjóður greiðir sóknargjöld með fjölgi um fleiri hundruð og hugsanlega þúsundir til lengri tíma litið. Gera verður ráð fyrir að brugðist verði við því með því að lækka á móti einingarverð sóknargjalda fyrir hvern einstakling. Þetta kemur fram í greinargerð með frumvarpinu.

Innanríkisráðherra lagði frumvarpið fyrir á Alþingi í dag. Meginmarkmið frumvarpsins er annars vegar að jafna stöðu lífsskoðunarfélaga og skráðra trúfélaga og stuðla að meiri jöfnuði meðal íbúa landsins gagnvart lögum óháð trúar- eða lífsskoðunum. Hins vegar er það markmið frumvarpsins að tryggja jafnrétti foreldra barns við ákvörðun um til hvaða trúfélags eða lífsskoðunarfélags barn skuli heyra en samkvæmt núgildandi lögum skal barn við fæðingu talið heyra til sama skráða trúfélags og móðir þess.

Í umsögn fjárlagaskrifstofu segir að um 15 þúsund einstaklingar sem eru 16 ára og eldri séu í trúfélögum sem ekki hafi fengið skráningu eða séu ótilgreindir. Þá séu tæplega 12 þúsund einstaklingar utan trúfélaga, en af þessum fjölda er talið að nokkur hundruð séu skráð í lífsskoðunarfélög. Heildarfjöldi félagsmanna þeirra liggur hins vegar ekki nægilega vel fyrir hjá innanríkisráðuneytinu. „Verði frumvarpið lögfest er ekki hægt að segja fyrir um hversu mikil fjölgun gæti orðið á einstaklingum sem framlag vegna sóknargjalda miðast við en benda má á að útgjöld ríkissjóðs mundu að óbreyttu aukast um 8,4 milljónir króna á ári fyrir hverja þúsund nýja einstaklinga sem ríkissjóður greiðir sóknargjöld með.“

Þá segir að vegna mikils halla á ríkisrekstrinum og stefnumörkunar um að afkoman nái jafnvægi eftir tvö ár þurfi að leitast við að sporna gegn nýjum útgjöldum af þessum toga. „Í tengslum við þetta frumvarp mætti gera ráð fyrir að því yrði náð fram með því að lækka einingaverðsviðmiðun framlaga vegna sóknargjalda þannig að heildarútgjöldin verði óbreytt þótt einstaklingum í trúfélögum og lífsskoðunarfélögum fjölgi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert