Stjórnarflokkarnir ræði eldsneytisverðið

Eldsneyti hefur hækkað gríðarlega í verði að undanförnu.
Eldsneyti hefur hækkað gríðarlega í verði að undanförnu. Morgunblaðið/Friðrik

Fullt tilefni er til að taka þróun á eldsneytisverði og álögur á eldsneyti til umræðu innan stjórnarflokkanna. Þetta sagði Lilja Rafney Magnúsdóttir, varaformaður efnahags- og skattanefndar Alþingis, eftir fund í morgun þar sem farið var yfir málið.

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, var boðaður á fundinn og fór hann meðal annars yfir hlutfallslega hækkun ríkisins, álagningu og samsetningu allra gjalda á eldsneyti frá árinu 2008 til dagsins í dag. Auk þess var verð hér á landi borið saman við nágrannalöndin.

Í samtali við Morgunblaðið sagði Runólfur, að frá tímabilinu 2008 til dagsins í dag hefði skattgreiðsla dæmigerðrar fjölskyldu hækkað um 100 þúsund krónur á ári vegna reksturs á fjölskyldubílnum. „Stjórnvöld hafa sagt að til þess að draga úr sveiflum á eldsneytisverði vegna þróunar á heimsmarkaði sé stór hluti skatta á eldsneyti fastar krónutölur, t.d. bensíngjald, vörugjald og kolefnisgjald sem er nýtt gjald en ofan á þetta leggst svo 25,5% virðisaukaskattur.“

Lilja Rafney segir að farið hafi verið fram á það við Runólf að hann tæki saman minnisblað um þessa þróun. En hvað verður gert með minnisblaðið? „Við munum ábyggilega ræða þetta áfram innan okkar raða,“ segir Lilja og á þar við efnahags- og skattanefnd en ekki síður innan stjórnarflokkanna. „Það er fullt tilefni til að taka þetta upp í umræðu innan þingflokka beggja stjórnarflokkanna þegar við fáum þetta yfirlit frá Runólfi.“

Spurð hvort hún eigi von á því að álögur verði lækkaðar á eldsneyti, þó tímabundið væri, segist Lilja ekkert geta tjáð sig um það. „En það er eðlilegt að þetta sé skoðað. Einhvers staðar eru sársaukamörkin og við verðum einnig að skoða hvernig tekist er á við þetta annars staðar. Við erum ekki ein í heiminum að glíma við þetta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert