Búist er við tveimur loðnuskipum til hafnar í Vestmannaeyjum undir miðnætti í kvöld en með komu þeirra hefst loðnufrysting í Eyjum. Um er að ræða skipin Álsey, skip Ísfélags Vestmannaeyja, og Kap, skip Vinnslustöðvarinnar.
„Við höfum verið að frysta svolítið í Rússlandi þessa vertíðina en við eigum von á skipi hérna til Eyja sem að kemur með loðnu í frystingu um miðnætti,“ segir Stefán Friðriksson, framkvæmdastjóri Ísfélags Vestmannaeyja, og bætir við að nú sé vertíðin að hefjast af fullum krafti.
„Þetta er náttúrlega búið að ganga ágætlega en nú er komin af stað þessi grunnnótaveiði,“ segir hann en loðnan er nú byrjuð að ganga með suðurströnd landsins og nálgast Vestmannaeyjar.
„Vonandi verður unnið á vöktum hérna næstu vikurnar í loðnufrystingu og eftir það í hrognavinnslu. Þetta ræðst nú allt af veðrinu.“