Tryggingafélagið Vörður gekk nýverið frá samningi við ríkið um brunatryggingar vegna allra fasteigna þess samkvæmt fréttatilkynningu frá fyrirtækinu en fasteignir ríkisins eru tæplega 1200 talsins.
„Þarna eru allar fasteignir ríkisins og má þar til dæmis nefna Alþingishúsið, allar byggingar Háskóla Íslands, spítalana, húsnæði ráðuneyta o.fl. Einnig má geta þess að Vörður tryggir nú þegar öll ökutæki ríkisins, Ríkisútvarpið og flugvellina í gegnum Isavia, svo þessi samningur Varðar og Ríkiskaupa um brunatryggingar er góð viðbót,“ segir Guðmundur Jóhann Jónsson, forstjóri Varðar.
Um er að ræða stærsta tryggingasamning sem Vörður hefur gert en heildarvirði hans er rúmar 500 milljónir króna og er hann til þriggja ára. Fram kemur í tilkynningunni að samanlagt brunabótamat fasteigna ríkisins sé um 230 milljarðar króna.