Bjartsýnir á horfur í ferðaþjónustunni

Ólöf Ýrr segist telja að hækkandi bensínverð hafi meiri áhrif …
Ólöf Ýrr segist telja að hækkandi bensínverð hafi meiri áhrif á íslenska ferðamenn en erlenda. Rax / Ragnar Axelsson

„Ferðaþjónustuaðilar eru almennt jákvæðir og bjartsýnir á horfur í greininni,“ segir Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri. Í könnun sem Ferðamálastofa lét MMR gera um ferðalög Íslendinga kemur í ljós að tæplega níu af hverjum tíu ferðuðust innanlands í fyrra og er ekki að greina miklar breytingar í ferðaáformum fólks fyrir nýbyrjað ár. Hafa langflestir ferðalög af einhverju tagi á stefnuskránni.

„Árið í ár lítur vel út. Það eru kannski ekki væntingar um að það verði jafnstórt stökk milli ára og í fyrra. Það þarf ekki að vera mjög neikvætt að fjölgunin verði minni í ár því við þurfum að geta byggt upp til að mæta væntingum og þörfum þeirra ferðamanna sem koma,“ segir Ólöf Ýrr. Í þessari atvinnugrein, eins og öðrum, sé oft betra að vera með aðeins minni viðvarandi vöxt en mjög stór stökk í einu til þess að uppbygging og fjölgun geti haldist í hendur.

Ólöf segir að miklar vonir séu bundnar við áframhaldandi aukningu í vetrarferðamennsku. „Janúarmánuður var mjög góður og það er vonandi að þessi fjölgun utan háannatíma haldi áfram. Það er róið að því öllum árum í greininni.“

Hækkandi bensínverð hefur meiri áhrif á íslenska en erlenda ferðamenn

Ólöf segir hækkandi bensínverð geta haft áhrif á ferðahegðun innanlands, jafnt hjá Íslendingum sem erlendum ferðamönnum. „Ég held hinsvegar að hækkandi bensínverð hafi meiri áhrif á íslenska ferðamenn en erlenda. Bæði er það svo að bensínverð erlendis er víða svipað, jafnvel hærra, en hér. Svo er það þannig að þegar fólk kemur erlendis frá þá breytir það ekki sínum plönum þó svo eitthvað svona komi upp á. Maður þekkir það sjálfur,“ segir Ólöf. „Hjá Íslendingum mátti greina í fyrra ákveðna tilhneigingu til breyttrar ferðahegðunar, fólk reyndi að keyra styttri vegalengdir en hér upplifa menn bensínhækkanirnar á eigin skinni á meðan erlendu ferðamennirnir upplifa ekki jafnmikinn mun. Hvort þessi tilhneiging heldur áfram eða hvort fólk hefur jafnað sig á þessu höggi sem var í fyrra, það verður reynslan að skera úr um.“

 Íslenskir neytendur verði meðvitaðri um mikilvægi gæða

Spurð nánar um könnun MMR segir Ólöf eitt hafa komið sér nokkuð á óvart. „Við erum nýbúin að birta niðurstöður könnunar um væntingar og upplifanir erlendra ferðamanna. Í þeirri könnun sögðu 56% að það skipti máli eða mjög miklu máli að fyrirtækin sem skipt væri við væru með viðurkennda gæðaúttekt. Það sló mig að í þessari nýju könnun segjast aðeins 27% aðspurða þetta skipta máli eða verulegu máli. Íslenskir neytendur virðast því ekki horfa á sama hátt til þessa hlutar og erlendir ferðamenn,“ segir Ólöf. 

„Ég velti fyrir mér hvernig við getum gert íslenska neytendur meðvitaðri um mikilvægi þess að þeir taki þátt í að hlúa að ferðaþjónustunni með því að vera meðvitaðir um hversu mikilvæg gæði eru og hversu mikilvægt það er að fyrirtæki sinni þeim málum með einhvers konar skilvirkum og viðurkenndum hætti,“ segir hún að lokum.

Ferðamenn við Strokk.
Ferðamenn við Strokk. Sigurgeir S.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert