Bjartsýnir á horfur í ferðaþjónustunni

Ólöf Ýrr segist telja að hækkandi bensínverð hafi meiri áhrif …
Ólöf Ýrr segist telja að hækkandi bensínverð hafi meiri áhrif á íslenska ferðamenn en erlenda. Rax / Ragnar Axelsson

„Ferðaþjón­ustuaðilar eru al­mennt já­kvæðir og bjart­sýn­ir á horf­ur í grein­inni,“ seg­ir Ólöf Ýrr Atla­dótt­ir ferðamála­stjóri. Í könn­un sem Ferðamála­stofa lét MMR gera um ferðalög Íslend­inga kem­ur í ljós að tæp­lega níu af hverj­um tíu ferðuðust inn­an­lands í fyrra og er ekki að greina mikl­ar breyt­ing­ar í ferðaáform­um fólks fyr­ir ný­byrjað ár. Hafa lang­flest­ir ferðalög af ein­hverju tagi á stefnu­skránni.

„Árið í ár lít­ur vel út. Það eru kannski ekki vænt­ing­ar um að það verði jafn­stórt stökk milli ára og í fyrra. Það þarf ekki að vera mjög nei­kvætt að fjölg­un­in verði minni í ár því við þurf­um að geta byggt upp til að mæta vænt­ing­um og þörf­um þeirra ferðamanna sem koma,“ seg­ir Ólöf Ýrr. Í þess­ari at­vinnu­grein, eins og öðrum, sé oft betra að vera með aðeins minni viðvar­andi vöxt en mjög stór stökk í einu til þess að upp­bygg­ing og fjölg­un geti hald­ist í hend­ur.

Ólöf seg­ir að mikl­ar von­ir séu bundn­ar við áfram­hald­andi aukn­ingu í vetr­ar­ferðamennsku. „Janú­ar­mánuður var mjög góður og það er von­andi að þessi fjölg­un utan há­anna­tíma haldi áfram. Það er róið að því öll­um árum í grein­inni.“

Hækk­andi bens­ín­verð hef­ur meiri áhrif á ís­lenska en er­lenda ferðamenn

Ólöf seg­ir hækk­andi bens­ín­verð geta haft áhrif á ferðahegðun inn­an­lands, jafnt hjá Íslend­ing­um sem er­lend­um ferðamönn­um. „Ég held hins­veg­ar að hækk­andi bens­ín­verð hafi meiri áhrif á ís­lenska ferðamenn en er­lenda. Bæði er það svo að bens­ín­verð er­lend­is er víða svipað, jafn­vel hærra, en hér. Svo er það þannig að þegar fólk kem­ur er­lend­is frá þá breyt­ir það ekki sín­um plön­um þó svo eitt­hvað svona komi upp á. Maður þekk­ir það sjálf­ur,“ seg­ir Ólöf. „Hjá Íslend­ing­um mátti greina í fyrra ákveðna til­hneig­ingu til breyttr­ar ferðahegðunar, fólk reyndi að keyra styttri vega­lengd­ir en hér upp­lifa menn bens­ín­hækk­an­irn­ar á eig­in skinni á meðan er­lendu ferðamenn­irn­ir upp­lifa ekki jafn­mik­inn mun. Hvort þessi til­hneig­ing held­ur áfram eða hvort fólk hef­ur jafnað sig á þessu höggi sem var í fyrra, það verður reynsl­an að skera úr um.“

 Íslensk­ir neyt­end­ur verði meðvitaðri um mik­il­vægi gæða

Spurð nán­ar um könn­un MMR seg­ir Ólöf eitt hafa komið sér nokkuð á óvart. „Við erum ný­bú­in að birta niður­stöður könn­un­ar um vænt­ing­ar og upp­lif­an­ir er­lendra ferðamanna. Í þeirri könn­un sögðu 56% að það skipti máli eða mjög miklu máli að fyr­ir­tæk­in sem skipt væri við væru með viður­kennda gæðaút­tekt. Það sló mig að í þess­ari nýju könn­un segj­ast aðeins 27% aðspurða þetta skipta máli eða veru­legu máli. Íslensk­ir neyt­end­ur virðast því ekki horfa á sama hátt til þessa hlut­ar og er­lend­ir ferðamenn,“ seg­ir Ólöf. 

„Ég velti fyr­ir mér hvernig við get­um gert ís­lenska neyt­end­ur meðvitaðri um mik­il­vægi þess að þeir taki þátt í að hlúa að ferðaþjón­ust­unni með því að vera meðvitaðir um hversu mik­il­væg gæði eru og hversu mik­il­vægt það er að fyr­ir­tæki sinni þeim mál­um með ein­hvers kon­ar skil­virk­um og viður­kennd­um hætti,“ seg­ir hún að lok­um.

Ferðamenn við Strokk.
Ferðamenn við Strokk. Sig­ur­geir S.
mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert