Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í Kastljósi í kvöld að allt tal um skjalafals í svokölluðu Vafningsmáli væri þvættingur. Sérstakur saksóknari hefði staðið fyrir opinberri rannsókn á þessu máli og enginn hefði verið ákærður fyrir skjalafals.
Sérakur saksóknari hefur ákært Lárus Welding, fyrrverandi bankastjóra Glitnis, og Guðmund Hjaltason, fyrrverandi framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs Glitni, fyrir að hafa misnotað stöðu sína og stefnt bankanum í stórfellda hættu með því að lána Milestone tíu milljarða króna í febrúar 2008, rúmu hálfu ári áður en bankinn féll.
Í tengslum við þessa lánveitingu skrifaði Bjarni undir veðsamninginn til Vafnings. DV hefur fjallað mikið um þetta mál og m.a. haldið því fram að Bjarni hafi skrifað undir fölsuð skjöl. Bjarni sagði í Kastljósi að skrif blaðsins væru „tóm vitleysa og þvæla“ enda hefði saksóknari ekki gefið út neina ákæru um skjalafals.
Bjarni sagðist enga skýringu hafa á því hvers vegna lán Glitnis var greitt út til Milestone. Það væri hinna ákærðu í málinu að útskýra það.
Bjarni benti á að þegar umrætt lán var tekið hefði verðmæti hlutabréfa þeirra hluthafa sem þarna koma að máli verið 28 milljarðar. Tekið hefði verið lán fyrir 14 milljarða. Vafningsmálið hefði komið til eftir að verðmæti hlutabréfanna tók að lækka. Í sjálfu sér hefðu ekki orðið til neinar nýjar skuldbindingar. Menn hefðu verið að framlengja lántöku vegna hlutabréfakaupa.
Bjarni lagði áherslu á að það sem saksóknari hefði séð athugavert í þessu máli eftir að hafa rannsakað það var hlutur bankastarfsmanna í málinu. Þar hefði hann ekki átt neina aðkomu. „Eina aðkoma mín að þessu máli er að útvega bankanum veð vegna lánsins. Að sjálfsögðu geng ég út frá því að bankinn sé að veita þetta lán á grundvelli gildandi laga og reglna sem í bankanum voru á þessum tíma,“ sagði Bjarni.