Breytingar sem gerðar voru á almannatryggingakerfinu á árinu 2009 skertu tekjur aldraðra meira en annarra þjóðfélagshópa. Þar er einkum átt við tekjutengingu grunnlífeyris og fulla tekjutengingu fjármagnstekna, sem áður voru tekjutengdar að hálfu.
Þetta kemur fram í ályktun sem Landssamband eldri borgara sendi frá sér í tilefni af umræðum um skýrslu um lífeyrissjóðina.
Í ályktun frá landssambandinu segir að það fagni aukinni umræðu um málefni lífeyrissjóða og útkomu skýrslu rannsóknarnefndar lífeyrissjóðanna. „Landssambandið minnir á að greiðslur úr lífeyrissjóðum er mikilvægasta uppspretta tekna eldri borgara og því hafa skerðingar á réttindum til útgreiðslu úr lífeyrissjóðum árin frá hruni reynst eldri borgurum þungar í skauti. Við þann bagga bættist ákvörðun Alþingis um að tengja lífeyrisgreiðslur við grunnlífeyri almannatrygginga 1. júlí 2009, þannig að þær hefðu áhrif til skerðingar á ellilífeyri auk þess sem fjármagnstekjur voru tekjutengdar að fullu við bætur almannatrygginga en höfðu áður verið tengdar að hálfu. Eldri borgarar urðu þannig fyrir umtalsvert meiri skerðingu á kjörum sínum en aðrir þjóðfélagshópar.
Landssambandið minnir á að lífeyrissjóðirnir hafa verið helsta uppspretta sparnaðar á undanförnum áratugum og mikilvæg undirstaða velferðar- og fjármálakerfis landsmanna. Lífeyriskerfið byggir í grunninn á hugmyndafræði sameiginlegrar ábyrgðar vinnuveitenda og launþega á velferðarmálum og heilbrigðum atvinnurekstri og er í andstöðu við átakastjórnmál og stéttastríð. Þótt lífeyrissjóðirnir löskuðust í hruninu, féllu þeir ekki til grunna og ónýttust eins og bankar og aðrar fjármálastofnanir. Traust launamanna og lífeyrisþega á lífeyrissjóðunum hefur þó beðið hnekki og mikilvægt er fyrir eldri borgara að lífeyrissjóðirnir hagi málum sínum og starfsemi á þann veg að þeir endurheimti fyrra traust. Einkum er mikilvægt að lífeyrissjóðirnir standi vörð um verðtryggðar eignir til þess að varna því að verðbólga rýri lífeyri eldri borgara og að létt verði á gjaldeyrishöftum hið fyrsta svo að lífeyrissjóðirnir geti dreift áhættu og fjárfest erlendis á ný.
Landssambandið leggur áherslu á að lög og reglur um lífeyrissjóði verði endurskoðuð í ljósi reynslu undanfarinna ára og skýrslu rannsóknarnefndar lífeyrissjóðanna, með hagsmuni rétthafa og eigenda sjóðanna í fyrirrúmi. Landssambandið telur mikilvægt að varðveita sjálfstæði lífeyrissjóðanna og að þeir starfi óháðir pólitísku áhrifavaldi og að í stjórnum þeirra sitji til jafns fulltrúar þeirra sem greiða í lífeyrissjóðinn og þeirra sem fá greiddan lífeyri úr sjóðunum auk fulltrúa atvinnurekenda. Landssamband eldri borgara gerir kröfu um að fá að fylgjast með þeirri endurskoðun sem framundan er og að eiga aðkomu að stjórnum lífeyrissjóðanna í framtíðinni.“