Sjónmengun ekki bara smekksatriði

Íslenskar háspennulínur í hefðbundnum stálgrindarmöstrum.
Íslenskar háspennulínur í hefðbundnum stálgrindarmöstrum. Mbl.is/Einar Falur Ingólfsson

Stálgrindarmöstrin sem bera uppi 3.000 km af háspennulínum vítt og breitt um Ísland eru táknmynd 19. aldar iðnvæðingar og ímynd þeirra neikvæð. Þótt þær hafi verið stolt tákn um verkfræðiþekkingu síns tíma hefur hönnun þeirra nú staðið í stað í marga áratugi, á meðan hönnun annarra mannvirkja fleygir fram. Þetta segir lektor í verkfræði við norskan háskóla.

Líkt og fjallað var um á Mbl.is í síðustu viku hefur lagning háspennulína mætt vaxandi mótstöðu á síðustu árum, enda þykir mörgum stálgrindarmöstrin sem bera þær uppi vera mikil sjónmengun í náttúrunni. Bæði sveitarfélög og íbúar í ólíkum landshlutum hafa mótmælt fyrirætlunum Landsnets um að leggja nýjar loftlínur um slík möstur.

Þessi vaxandi andúð á stálgrindarmöstrum er í samræmi við það sem hefur verið að gerast erlendis, að sögn Magnúsar Rannvers Rafnssonar, lektors í verkfræði við Hist-háskóla í Syðri-Þrændalögum í Noregi. Hann segir umræðuna hér hafa leiðst út í að einblína fyrst og fremst á tvo kosti, annaðhvort stálgrindarmöstur eða jarðstrengi, en þriðji kosturinn geti verið að gjörbreyta hönnun háspennumastranna. Á þessu sviði gildi hins vegar það sama og á öðrum, að einokun og fákeppni hamli þróun.

Sama aðferð og við Eiffel-turninn frá 1889

Byggingaverkfræðideild HiST-háskóla tekur um þessar mundir þátt í samstarfi um rannsóknarverkefni sem snýr að þróun flutningskerfa rafmagns. Aðrir þátttakendur eru m.a.  háskóli í Stuttgart í Þýskalandi sem og Háskólinn í Reykjavík, en verkefnið er m.a. styrkt af Rannís. Markmiðið er að finna leiðir til að þróa möstur sem eru bæði umhverfisvænni og tæknilegra fullkomnari en jafnframt hagkvæmari en þau stálgrindarmöstur sem Íslendingar þekkja svo vel. Magnús játar því að þetta sé spurning um að hugsa svolítið út fyrir kassann. „Þetta snýst um nýsköpun en einnig að nýta lausnir sem eru þekktar af öðrum sviðum. Þetta vandamál er eitthvað sem er hægt að leysa með nýrri nálgun, en það þarf að gera það markvisst.“

Hefðbundin hönnun háspennumastra byggist á sömu verkfræðiaðferðum og Eiffel-turninn - en byggingu hans lauk árið 1889. Eins og nærri má geta er það ekki vegna þess að verkfræðingar hafi þá þegar dottið niður á hönnunarlega fullkomnun, heldur hefur hönnun háspennumastra dregist aftur úr öðrum verkfræðimannvirkjum sem hafa verið í stöðugri þróun. Má þar nefna brúarmannvirki sem dæmi. Áður fyrr voru stálgrindur gjarnan notaðar við brúargerð en það sést varla lengur.

Danir vildu ekki nota stálgrindur

„Það eru til aðrar týpur af möstrum og það eru þjóðir sem eru komnar lengra með þetta en við. en engu að síður er þetta að snúast upp í að verða stór vandamál um allan heim. Margar þjóðir eru að vakna upp við vondan draum, sérstakleg þegar hugsað er til fyrirhugaðrar stækkunar raforkuflutningskerfisins, í Evrópu og víðar,“ segir Magnús. Sjónmengun sé líka mengun sem beri að taka alvarlega, en hún sé erfiðari viðureignar þar sem hún er ekki mælanleg eins og efnisleg mengun. Magnús segir það misskilning að halda því fram að birtingarformið, þ.e. hvort mannvirki séu falleg, hlutlaus eða ljót, sé „bara smekksatriði“. Rétt eins og með önnur mannvirki ætti að vera hægt að laga háspennumöstur að nútímanum, gera þau aðlaðandi og endurvekja jákvæða ásýnd á verkfræðinni sem búi að baki.

Sem dæmi um þetta nefnir Magnús vindmyllurnar í Danmörku. Umhugsunarvert sé hvers vegna Danir völdu að nota ekki stálgrindur undir vindmyllurnar sínar. „Það eru til vindmyllur á stálgrindum, en samanburðurinn við dönsku myllurnar á hvítu stólpunum er sláandi. Útlitslega séð eru hvítu myllurnar svo miklu betri hönnun enda eru þær orðnar að jákvæðri táknmynd um nútímatækni sem vinnur með umhverfinu.“

Þörf á nýjum aðferðum

Árið 2008 var haldin samkeppni um hönnun línumastra á vegum Landsnets þar sem þátttakan var góð. Magnús segir að þótt keppnin hafi verið ágætis byrjun hafi úrvinnslan verið lítil. Skemmtilegar lausnir hafi komið fram, en engu að síður byggst á sömu grunnhugmyndinni, um stálgrindarmöstur. Ýmsar efnilegar tillögur hafi komið fram, en tillögum í slíkum samkeppnum hætti til að vera meira í ætt við skúlptúra en vöru sem henti til fjöldaframleiðslu. Slíkir skúlptúrar geti vel átt við í réttu samhengi, en séu venjulega dýr lausn.

„Þetta er spurning um verkfræðihönnun þar sem nýjum aðferðum er beitt. Nýrri verkfræði, sem þekkist til dæmis í flugvélaiðnaði, bíla- og vélaverkfræði,“ segir Magnús.  Rannsóknarverkefnið við HiST-háskóla er nú komið á það stig að hægt verði að framleiða frumgerðir af nýjum möstrum sem hönnuð hafa verið úr trefjastyrktu plasti. Svona þróunarvinna gerist hins vegar ekki á einni nóttu, að sögn Magnúsar. „Þetta er vel hægt, en það þarf bara að gera það rétt. Það þarf að fjárfesta í rannsóknum og þróun á þessu sviði, eins og gert er á öðrum sviðum þar sem nýjar og betri vörur eru þróaðar til að leysa af eldri vörur sem eru komnar á enda síns æviskeiðs.“

Bandaríska arkitektastofan Choi + Shine var meðal þeirra sem tók …
Bandaríska arkitektastofan Choi + Shine var meðal þeirra sem tók þátt í hönnunarsamkeppni Landsnets 2008 með hugmyndina „Land risanna". Þar er um að ræða skúlptúra úr stálgrind. Ljósmynd/Choi + Shine
Vindmyllur frá danska fyrirtækinu Vestas sjást hér við hlið stálgrindarmastra …
Vindmyllur frá danska fyrirtækinu Vestas sjást hér við hlið stálgrindarmastra við Heide í Þýskalandi. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka