Fulltrúar minnihlutans í bæjarstjórn Kópavogs létu bóka á bæjarstjórnarfundi sem lauk á ellefta tímanum í kvöld, að sýnt væri að nýr meirihluti ætlaði að ráðast í stórfelldan niðurskurð til að mæta skattalækkunum. Minnihlutinn segist ekki styðja „buddupólitík“ nýja meirihlutans.
„Þegar fráfarandi meirihluti Samfylkingar, Vinstri grænna, Næst besta flokksins og lista Kópavogsbúa tók við völdum í Kópavogi í júní 2010 var fjárhagsstaða bæjarins afar slæm og skuldastaða við hættumörk. Meirihlutinn kappkostaði að ná niður skuldum bæjarins og forða bæjarsjóði frá því að fara á forræði eftirlitsnefndar um fjármál sveitarfélaga. Gríðarlegur árangur hefur náðst hvað þetta varðar á undanförnum mánuðum. Þrátt fyrir þetta hafa skattar í Kópavogi staðið í stað frá árinu 2008. Þá tókst að standa vörð um félagsþjónustu, leikskóla, grunnskóla auk þess sem vel tókst til þegar sveitarfélagið tók við málaflokki fatlaðra frá ríkinu.
Það er áhyggjuefni að meirihluti Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og lista Kópavogsbúa ætli nú að grípa til buddupólitíkur og kaupa hylli kjósenda með skattalækkunum með tilheyrandi skuldasöfnun. Þetta er sami meirihluti og jók skuldir bæjarins um 30 milljarða á síðasta kjörtímabili – um milljón á hvern einasta íbúa bæjarins. Lækkun gjalda og skatta í Kópavogi verður að fjármagna með stórfelldum niðurskurði. Í málefnasamningi meirihlutans blasir við að það verði í leik- og grunnskólum bæjarins, félagsmiðstöðvum og menningarstofnunum og er það í takti við tillögur bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá því í desember en þá lögðu þeir til um 300 milljóna króna óskilgreindan niðurskurð í skólum bæjarins, um 30 milljónum í félagsmiðstöðvum og forvarnarstarfi og tugum milljóna í menningarstofnunum.
Sú gamla klisja að ætla að úthluta lóðum fyrir öllu bruðlinu stenst enga skoðun nú þegar eftirspurn eftir lóðum er takmörkuð. Lóðir hafa verið seldar frá vorinu 2010 og er von um að sala á lóðum muni taka kipp á næstu misserum. Hagnaður af lóðasölu hefur farið í niðurgreiðslu skulda en svo virðist sem hinn nýi meirihluti undir forystu Ármanns Kr. Ólafssonar muni nota hagnað af lóðasölu í lækkun gjalda, þvert á það sem talaði sig hásan um í stjórnarandstöðu.
Fyrirhuguð stjórnsýsluúttekt er óskilgreind og óljós og engar líkur á að þeir flokkar sem standa að meirihlutanum hafi nokkurn áhuga á að taka út vægast sagt umdeildar ákvarðanir sem teknar voru í tíð þessa sama meirihluta. Gunnar I. Birgisson mun eiga sæti í einni veigamestu nefnd bæjarins, framkvæmdarráði. Framkvæmdarráð fer með allar framkvæmdir bæjarins, lóðaúthlutanir, innkaup, samninga við verktaka og útboð. Jafnframt verður Gunnar I Birgisson fulltrúi Kópavogsbæjar í stjórn Strætó bs. Það er ljóst að gamli meirihlutinn er komin til valda í boði Lista Kópavogsbúa og þá veitir ekki af öflugu aðhaldi,“ segir í bókun bæjarfulltrúa minnihlutans.