Endurreikna þarf öll lán

Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans.
Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans. mbl.is/Ernir

Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, segir að endurreikna verði öll gengistryggð lán í kjölfar dóms Hæstaréttar. Hann segist ekki sjá betur en að dómurinn hafi bæði áhrif á lán einstaklinga og fyrirtækja.

„Þetta hefur í för með sér einhvern kostnað og mikla vinnu því það þarf að endurreikna allt aftur. Það er hins vegar of skammt liðið frá því dómurinn féll til að við getum komið fram með einhverja tölu með ábyrgum hætti. Um leið og eitthvað er fast í hendi munum við gefa frá okkur slíkar upplýsingar,“ segir Steinþór.

Steinþór segir að sér sýnist allt benda til að endurreikna þurfi öll mál, líka lánasamninga sem búið var að gera upp. Þetta hafi kannski ekki þýðingu fyrir lán sem aldrei hafi verið borgað af.

Steinþór segist ekki hafa náð að skoða allar hliðar þessa máls, en hann segist líklegt að endurreikna þurfi bæði lán einstaklinga og fyrirtækja.

Landsbankinn lauk útreikningum á gengistryggðum fasteignalánum í fyrravor. Í haust féll dómur í svokölluðu Mótormax-máli og í framhaldinu var farið að endurreikna lán til fyrirtækja sem höfðu tekið sambærilega lán. Í vetur féll dómur um fjármagnsleigusamninga, en ekki er búið að gera upp þau mál vegna óvissu um hvernig eigi að fara með útreikninga á virðisaukaskatti. Þessi nýjasti dómur hæstaréttar kallar á endurreikning á öllum þessum lánum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka