Loka á fangelsinu í Bitru í Flóahreppi í vor og flytja starfsemi þess á Sogn í Ölfusi. Páll Winkel fangelsismálastjóri staðfestir þetta og segir fjármálaráðherra hafa samþykkt beiðni þess efnis.
Í Bitru hefur verið starfrækt fangelsi með opnu sniði og breytist það ekki við flutninginn á Sogn. Litlu þurfi að breyta fyrir flutninginn.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segist Páll sjá Sogn fyrir sér sem varanlegt fangelsi. Töluverð hagræðing verði af því að flytja frá Bitru og á Sogn, enda Bitra í eigu einkaaðila en Sogn í eigu ríkisins og leigan því mun lægri. Sami fjöldi fanga á að geta verið þar og er nú í Bitru, eða 18 fangar. Átta stöðugildi, fangavarða og annarra starfsmanna, flytjast óbreytt með yfir á Sogn.