Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokks, sagði á Alþingi í dag að hjartað í framsóknarmönnum væri vinstra megin.
Höskuldur sagði að Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefði gefið í skyn á Alþingi í gær að Framsóknarflokknum væri stjórnað úr Hádegismóum þar sem Morgunblaðið er til húsa, og þannig reynt að spyrða flokkinn við Sjálfstæðisflokkinn.
„Þetta er tilraun vinstri manna, þegar Framsóknarflokkurinn er að stækka og ná vopnum sínum, að ýta honum yfir til hægri. En Framsóknarflokkurinn hefur nefnilega gert það sem ég tel að hann eigi að gera, að sýna á sér vinstri hliðina. Hjarta Framsóknarflokksins er vinstra megin og við höfum upp á síðkastið sýnt, að við erum frjálslyndur vinstri flokkur og viljum vera þar í flóru stjórnmálanna," sagði Höskuldur.
Róbert Marshall, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði í umræðunni, að það væri farsælast fyrir Framsóknarflokknum að vinna til vinstri, þá farnaðist honum vel. „Auðvitað er það þannig að hér eru flestir í megindráttum mjög sammála um þjóðmálin. Flestir, sem hér sitja inni, eru í hjarta sínu sósíaldemókratar, nema kannski með þeirri undantekningu, sem felst í háttvirtum þingmanni Vigdísi Hauksdóttur (þingmanni Framsóknarflokks)."