Hæstiréttur dæmdi í dag að Frjálsa fjárfestingarbankanum hefði ekki verið heimilt að krefjast hærri vaxtagreiðslna aftur í tímann miðað við vaxtaviðmið Seðlabankans af lánum sem bundin voru við gengi erlendra mynta. Samkvæmt heimildum mbl.is mun þessi niðurstaða leiða til verulegra útgjalda fyrir bankana.
Erlendu gengislánin voru dæmd ólögmæt af Hæstarétti árið 2010 og við endurútreikninga á lánunum var miðað við íslenska lágmarksvexti en ekki við þá vexti sem samið var um þegar lánin voru veitt en þeir voru mun lægri. Þetta taldi Hæstiréttur að væri ekki heimilt aftur í tímann og miða yrði við þá vexti sem upphaflega var samið um, ef fullnaðarkvittun lægi fyrir greiðslunum.
Dómurinn sem um ræðir er vegna máls sem hjón höfðuðu gegn Frjálsa fjárfestingarbankanum. Í dómnum segir að það standi bankanum nærri en hjónunum að bera þann vaxtamun sem af erlendu lánunum hlaust og að hinn rangi lagaskilningur aðila yrði einungis leiðréttur til framtíðar.
Hæstiréttur klofnaði í málinu. Fjórir dómarar dæmdu hjónunum í vil en þrír skiluðu saman séráliti bankanum í vil.