Febrúarmánuður fer án efa í sögubækurnar hjá smábátasjómönnum á suðvesturhorni landsins fyrir afleitt tíðarfar. Margir bátar hafa einungis farið í tvær sjóferðir frá Grindavík og Sandgerði og sumir einungis einn róður.
Til að mynda er Þórkatla GK, sem var með aflahæstu smábátum á landinu árið 2011, einungis búin að fara í eina sjóferð en fékk samt tæp 11 tonn í þeim eina róðri. Einungis hefur gefið á sjó í tvo daga. Hinn 9. febrúar fóru margir bátar á sjó frá Sandgerði og nokkrir þeirra komu með fullfermi að landi.
Muggur KE kom með 12,2 tonn og var þorskur 11 tonn af aflanum. Stella GK kom með 9,1 tonn, þar af var þorskur 8,7 tonn, og Steini GK kom með 8,5 tonn að landi og var þorskur um 8 tonn af þeim afla, að því er segir á vefnum Aflafréttir.