Ritstjórar DV segja ásakanir Bjarna Benediktssonar um að ritstjórn DV gangi erinda VG, alvarlegar og vega að trúverðugleika DV sem hlutlauss fjölmiðils. Bjarni var í viðtali við Kastljósið í gærkvöldi.
Í yfirlýsingu ritstjóranna Reynis Traustasonar og Jóns Trausta Reynissonar segir að Bjarni hafi engar sannanir fært á ítrekaðar ásakanir sínar. „Aðdragandi ásakananna er að DV hefur fjallað um aðkomu Bjarna að viðskiptafléttu Milestone og Glitnis, auk sölu hans á hlutabréfum í Glitni í febrúar 2008. Umfjöllunin byggir á fjölda staðreynda og gagna, ólíkt órökstuddum ásökunum Bjarna. Afar óábyrgt er af formanni stærsta stjórnmálaflokks landsins að færa ítrekað fram rangar og rakalausar ásakanir í fjölmiðlum.“