Sigmundur: Hæstiréttur dæmir ríkisstjórn

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Ómar Óskarsson

Niðurstaða Hæstaréttar í máli Frjálsa fjárfestingarbankans sem féll í dag er áfellisdómur yfir ríkisstjórn Íslands, sem á sínum tíma gaf út fyrirskipunina um að það skyldi gert sem nú var verið að dæma ólöglegt, skrifar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins á bloggsíðu sinni.

Sigmundur Davíð skrifar: Ein af forsendum dómsins er að þegar gengistryggðu lánin voru dæmd ólögleg hefði það staðið bönkunum sem lánveitendum nær að taka á sig áfallið en neytendum. Ríkisstjórnin mat þetta akkúrat öfugt. Þar á bæ virðast ráðherrarnir hafa hugsað á svipaðan hátt og þeir hafa talað í hvert sinn þegar almenna skuldaleiðréttingu ber á góma: ,,Já en það kostar allt of mikið”.

Hæstiréttur hefur nú komist að þeirri niðurstöðu að Frjálsa fjárfestingarbankanum hefði ekki verið heimilt að krefjast hærri vaxtagreiðslna aftur í tímann miðað við vaxtaviðmið Seðlabankans af lánum sem bundin voru við gengi erlendra mynta. Það á eftir að koma í ljós hversu víðtæk áhrif þetta hefur á banka og fjármögnunarfyrirtæki.

Það er ekki óvarlegt áætla að heildarkostnaðurinn fari a.m.k. vel yfir 100 milljarða. Það jákvæða er að fjárhagsstaða heimila sem eru með gengistryggð lán mun batna þar sem þau munu væntanlega fá endurgreiðslur á ofgreiddum vöxtum. Hins vegar eykur þetta enn á misvægi milli þeirra annars vegar og svo hinna sem glíma við verðtryggð lán og hafa litla leiðréttingu fengið.

Á sínum tíma vöruðu Framsóknarmenn mjög við því að gengisbundnu lánin yrðu færð yfir í nýju bankana á meðan veruleg óvissa væri um lögmæti þeirra. Það var gert engu að síður og nú er því haldið fram, m.a. með skýrslu Hagfræðistofnunar, að afskriftasvigrúm bankanna hafi að mestu verið nýtt í tapið sem bankarnir urðu fyrir vegna gengisbundnu lánanna, skrifar Sigmundur Davíð m.a.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka