84% borgarstarfsmanna ánægð í starfi

Jón Gnarr borgarstjóri
Jón Gnarr borgarstjóri mbl.is/Ómar Óskarsson

Um 84% starfsmanna Reykjavíkurborgar eru ánægð í starfi og líður vel í vinnunni.  Þetta kemur fram í niðurstöðum viðhorfskönnunar meðal starfsmanna Reykjavíkurborgar, sem kynnt var í borgarráði í dag. Minnihlutinn í borgarráði bendir á að dregið hafi úr starfsánægju frá síðustu könnun.

 Samkvæmt könnuninni eru 92% starfsmanna tilbúnir að leggja mikið á sig í vinnunni þegar þörf krefur og 87% eru stolt af starfi sínu.

Í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að markmið könnunarinnar sé að fá viðhorf starfsmanna til starfsumhverfis, stjórnunarhátta og samskipta, og nýta niðurstöðurnar til að bæta árangur í starfsmannamálum. Könnuninni er einnig ætlað að gefa borgaryfirvöldum, stjórnendum og starfsmönnum vísbendingar um stöðuna í þeim þáttum sem áhrif hafa á hvernig starfsmönnum tekst til við að veita borgarbúum góða þjónustu.

Í fréttatilkynningunni er haft eftir Jóni Gnarr, borgarstjóra, að hann sé ánægður með niðurstöður könnunarinnar og þær mikilvægu upplýsingar sem hún gæfi um viðhorf starfsmanna til Reykjavíkurborgar sem vinnuveitanda.  Niðurstöðurnar væru mjög góðar eins og reyndar fyrri ár, en eins kæmu fram ýmsar vísbendingar um að gera megi betur.

Hallur Páll Jónsson, mannauðsstjóri Reykjavíkurborgar, gat þess að í samanburði við aðrar höfuðborgir Norðurlanda, þá gæfi könnunin vísbendingar um góða niðurstöðu í flestum þáttum, s.s. starfsánægju og starfsanda, en á móti kæmi að stjórnendur mættu standa sig enn betur við að hrósa starfsmönnum fyrir vel unnin verk og gæta þess að álag í starfi væri hæfilegt.  

Mannauðsskrifstofa Reykjavíkurborgar sá um framkvæmd könnunarinnar í samvinnu við mannauðsráðgjafa á fagsviðum borgarinnar.  Könnunin náði til 6.738 starfsmanna og svarhlutfall var 67% sem telst vera mjög gott.

Niðurstöðurnar verða kynntar fyrir stjórnendum og starfsfólki á næstu dögum og vikum, og teknar til umræðu á öllum vinnustöðum borgarinnar. Tilgangurinn er að grípa til aðgerða í starfsmannamálum, styrkja það sem vel er gert og bæta það sem betur má fara.

Dregur úr starfsánægju

Bogarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og VG létu bóka í borgarráði í dag að núna loksins hefði borgin gengið til þess verks að láta framkvæma viðhorfskönnun meðal starfsmanna Reykjavíkurborgar, en því var á síðasta ári frestað vegna óánægju starfsfólks í skólakerfinu sem talin var geta skekkt niðurstöðurnar. 

„Sú ákvörðun meirihlutans var harðlega gagnrýnd, enda mjög ámælisverð og án efa einsdæmi að valdhafar velji eftir geðþótta þá tímapunkta sem þeir telja henta sjálfum sér og sinni pólitík best til að gefa starfsfólki tækifæri til að segja skoðun sína á eigin starfsumhverfi.  Áður hafði könnunin alltaf verið framkvæmd á ákveðnum tíma árs með tveggja ára millibili til að tryggja samanburðarhæfni og faglega úrvinnslu.

Niðurstaða þeirrar könnunarinnar sem nú liggur fyrir staðfestir engu að síður að verulega hefur dregið úr starfsánægju á svo til öllum sviðum hjá Reykjavíkurborg.   Þetta á jafnt við um starfsumhverfi, samskipti og stjórnunarhætti en á öllum þessum kvörðum mælist ánægja minni en hún var síðast þegar slík könnun var gerð árið 2009.   Þessi þróun er sérstaklega áberandi á sviðum sem tengjast þjónustu við börn og fjölskyldur og allra mest á leikskólasviði, sem kemur ekki á óvart í ljósi forgangsröðunar meirihlutans.

Borgarstjórn hlýtur að taka þessar niðurstöður til sérstakrar athugunar með það að markmiði að gera betur og tryggja að Reykjavík verði áfram fyrirmyndarvinnustaður.  Vegna þessara niðurstaðna munu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna óska eftir sérstakri umræðu um minnkandi starfsánægju hjá borginni á næsta fundi borgarstjórnar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert