Hluthafafundur Greiðrar leiðar ehf. samþykkti í dag heimild til að auka hlutafé félagsins upp í allt að 400 milljónir króna. Þetta er gert til vegna mögulegrar aukningar hlutafjár í Vaðlaheiðargöngum hf. sem nú vinnur að ganganna.
Greið leið ehf. á 49% hlutafjár í Vaðlaheiðargöngum hf. en Vegagerðin 51%. Styrking eiginfjár félagsins að baki framkvæmdunum við Vaðlaheiðargöng var ein af helstu ábendingum IFS greiningar ehf. í nýlegri greinargerð um Vaðlaheiðargöng sem unnin var að beiðni fjármálaráðuneytisins.
Eigendur Greiðrar leiðar ehf. eru öll sveitarfélögin á Norðausturlandi, átta fyrirtæki og Eyþing, samband sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslu.
Hluthafafundurinn í dag heimilaði tvöföldun hlutafjár, úr 200 milljónum í 400 og segir í greinargerð með samþykkt fundarins að heimilt sé að bjóða nýjum aðilum hlutafé til kaups, nýti ekki allir núverandi hluthafar forkaupsrétt sinn.
Pétur Þór Jónasson, stjórnarformaður Greiðrar leiðar, segir samþykkt hluthafafundarins undirstrika ríkan vilja heimafólks til að framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng hefjist hið fyrsta.