Bíða enn svars frá forsætisráðherra

Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon.
Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon. mbl.is/Árni Sæberg

Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra segjast enn bíða svars frá Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra við að finna leiðir til nýtingar atvinnutækifæra sem eru til staðar á Norðurlandi vestra, íbúum svæðisins og landsmönnum öllum til heilla.

Í yfirlýsingu frá stjórn SSNV segir að stjórnin hafi sent erindi til forsætisráðherra og fjármálaráðherra fyrir tæpum þremur mánuðum og enn hafi engin formleg svör borist.

„Óskað var eftir fundi til að ræða alvarlega stöðu Norðurlands vestra í ljósi mikillar fólksfækkunar,niðurskurðar og tilflutnings starfa af hálfu ríkisins. Í erindinu var stöðunni lýst og settar fram tillögur um viðbrögð. Ítrekanir á erindinu hafa ekki borið árangur. Það er engu að síður enn einlægur vilji  stjórnar SSNV að æðstu ráðmenn landsins verði við ósk um fund eins fljótt og verða má svo leggja megi á ráðin um hvernig snúa megi við þessari alvarlegu þróun í landshlutanum. Íbúar á NV trúa því ekki að fólk sem trúað er fyrir landstjórninni af bæði þjóðinni og alþingi velji að snúa baki við heilu landshlutunum.
Starfsmaður í Forsætisráðuneytinu bauð nýverið í símtali upp á fund þann 9. febrúar ásamt ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóra úr Innanríkisráðuneytinu. Án þess að lítið sé gert úr starfsfólki ráðuneytisins, þá skal áréttað að óskað var eftir fundi með forsætisráðherra og oddvitum ríkisstjórnarinnar og milliliðalausum samskiptum á milli forsvarsmanna tveggja stjórnsýslustiga, sveitarfélaga á NV og ríkisstjórnarinnar. Minnt er á að ráðherra sjálf hefur ekki enn fallist á að hitta fulltrúa SSNV þrátt fyrir að erindi þar um sé tæplega þriggja mánaða gamalt.

SSNV telja sig ennfremur knúin til að leiðrétta fullyrðingu sem fram kemur í fréttatilkynningu ráðuneytisins þar sem fram kemur að rúmlega 90 milljónir króna hafi komið í hlut tveggja verkefna á Norðurlandi vestra sem samþykkt voru af ráðherranefnd um ríkisfjármál vegna fjárlaga ársins 2012 í tengslum við Sóknaráætlun landshluta. Til leiðréttingar vísast til fylgiskjals með fréttatilkynningu um úthlutunina frá forsætisráðuneytinu þann 25. nóvember 2011. Hið rétta er eins og þar kemur fram, að alls komu 32,8 milljónir til tveggja verkefna á svæðinu. 30 milljónir til hitaveitulagningar frá Reykjum til Skagastrandar sem eru 6,3% af heildarkostnaði og 2,8 milljónir til Dreifnáms í Húnaþingi vestra sem eru 70% af heildarkostnaði. Með þessu er ekki á neinn hátt gert lítið úr stuðningi ríkisins við áðurgreind verkefni heldur eingöngu leiðréttar staðreyndir í á margan hátt villandi yfirlýsingu frá forsætisráðuneytinu á dögunum.

Stjórn SSNV ítrekar óskir sínar og vilja til að eiga gott samstarf við forsætisráðherra og starfsmenn ráðuneytisins við að finna leiðir til nýtingar hinna fjölmörgu tækifæra sem eru til staðar á Norðurlandi vestra, íbúum svæðisins og landsmönnum öllum til heilla.“

Fréttatilkynning forsætisráðuneytisins ásamt fylgisskjölum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert