„Mér sýnist að þarna sé á ferðinni enn eitt skrefið í þeirri tilraunastarfsemi við stjórnarskrárbreytingar sem staðið hefur yfir í þrjú ár,“ segir Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis, aðspurður um afstöðu sína til þeirrar tillögu sem samþykkt var af meirihluta nefndarinnar í kvöld.
„Ég hefði haldið að nú á þessum tímapunkti ættu menn frekar að einbeita sér að faglegri og fræðilegri vinnu við að útfæra einhverjar breytingar sem sæmileg samstaða gæti náðst um í staðinn fyrir að flækja ferlið með þeim hætti sem nú virðist eiga að fara út í,“ bætir Birgir við en hann greiddi atkvæði gegn tillögunni í kvöld.
Samkvæmt umræddri tillögu er stefnt að því að stjórnlagaráð komi aftur saman í fjóra daga í byrjun marsmánaðar og að greidd verði atkvæði um tillögur stjórnlagaráðs samhliða forsetakosningum í sumar.