Ragnar H. Hall hæstaréttarlögmaður segir að dómur í málinu gegn Frjálsa fjárfestingarbankanum geti haft áhrif á stöðu þeirra sem hafa misst allt sitt í banka- og gengishruninu.
„Það kann vel að vera að þeir eigi rétt á leiðréttingu,“ svarar Ragnar. „En þau mál verða menn að skoða hvert og eitt fyrir sig. Það getur reynt á fyrningarákvæði vegna þess að fyrningartími á vöxtum er fjögur ár og ef menn eru að endurreikna vexti lengra aftur í tímann er það líka óheimilt.“
„En ef óheimil kröfugerð hefur leitt til þess að fólk hafi misst eignir sínar sýnist mér að menn hljóti að skoða það eitthvað betur. Skoða hvernig hagur þess verði réttur jafnvel þótt bankarnir telji sig hafa verið í góðri trú, það er bara allt annað mál. Aðalatriðið er að reyna að finna leið til að komast að niðurstöðu án þess að setja allt í einhvern hnút.“
En hvað með þá sem hafa misst fyrirtæki sín? Ragnar segir að erlendu gengislánin geti stundum hafa ráðið úrslitum, sum fyrirtæki hafi meira að segja verið keyrð í þrot áður en búið var að dæma um lögmæti gengistrygginganna. „Ég veit um stjórnendur sem í því lentu sem hafa í hyggju að láta reyna eitthvað á sína stöðu.“