Valgerður Bjarnadóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, sér fyrir sér að kosið verði um það hvort þjóðkirkjunnar skuli getið í stjórnarskránni þegar kosið verður um frumvarp stjórnlagaráðs samhliða forsetakosningum í sumar. Stjórnlagaráð verður kallað saman í mars.
„Við lögðum til að stjórnlagaráð verði kallað saman í fjóra daga í byrjun mars. Fulltrúar stjórnlagaráðs lýstu sig reiðubúna til að koma til skrafs og ráðagerða þegar þeir skiluðu frumvarpinu til þingsins. Við ætlum að ræða við þá og kanna hvort það er eitthvað sem þeir vilja í breyta í frumvarpinu áður en það fer í þjóðaratkvæðagreiðslu,“ segir Valgerður um meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnskipunarlaga.
„Við viljum kalla fulltrúana til umræðu og meðal annars ræða umsagnir sem hafa borist til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Við stefnum að því að frumvarp stjórnlagaráðs verði lagt í þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða forsetakosningunum. Síðan er ætlunin að stilla upp fjórum til fimm grundvallarspurningum sem varða stjórnarskrána. Ég sé til dæmis fyrir mér að fólk verði spurt hvort það vilji að þjóðkirkjunnar sé getið í stjórnarskránni,“ segir Valgerður en hún er þingmaður Samfylkingar.
Markmið stjórnlagaráðs er að leggja fram frumvarp að nýrri stjórnarskrá sem kosið verði um eigi síðar en í júní 2012 í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu.