Örn Bárður Jónsson sóknarprestur í Neskirkju hefur ákveðið að bjóða sig fram í biskupskjöri sem fram fer í apríl. Þar með hafa átta prestar tilkynnt um framboð.
Í yfirlýsingu frá Erni Bárði segir að hann hafi eftir langa umhugsun og hvatningu, bæði leikra og lærðra ákveðið að gefa kost á sér til kjörs í embætti biskups Íslands.
„Ég hef fjölþætta starfsreynslu innan kirkjunnar. Ég hef verið leikmaður í kirkjunni, djákni, aðstoðarprestur, prestur og sóknarprestur, verkefnisstjóri og fræðslustjóri. Í félagsstarfi þar sem ég hef verið þátttakandi hef ég verð valinn til forystu. Ég þekki því flest af því sem snýr að hinu innra starfi kirkjunnar og var starfsmaður á Biskupsstofu í níu ár.
Biskup er fremstur meðal jafningja. Hann er ekki framkvæmdastjóri í fyrirtæki heldur gegnir hann andlegri þjónustu við alla kirkjuna. Hann er prestur prestanna og þar með safnaðanna allra. Biskup má ekki ganga í skrifstofubjörg og fjarlægjast almenning. Biskup gegnir margþættu starfi og þarf að vera vel að sér í mörgu.
Hann þarf að verja kenningu kirkjunnar og vera til leiðbeiningar um hana. Hann þarf að kunna skil á rekstri og stjórnun, vera læs á ársreikninga og rekstur. Hann þarf að vera góður í mannlegum samskiptum og hann þarf að vera áheyrilegur prédikari og kennimaður.“