Ekki gert ráð fyrir tveimur mæðrum

Hin árlega Gleðiganga Gay Pride er orðin með stærstu fjölskylduviðburðum …
Hin árlega Gleðiganga Gay Pride er orðin með stærstu fjölskylduviðburðum í Reykjavík. Mbl.is/Ómar Óskarsson

Íslenskar fjölskyldur eru af öllum stærðum og gerðum, kynjum og kynþáttum. Breytingar á fjölskyldumynstrinu hafa orðið hraðar á síðustu áratugum, jafnvel svo hraðar að skriffinnska kerfisins heldur ekki í við þær. Samkynhneigðir foreldrar segja það skipta miklu máli að fjölskylduform þeirra sé viðurkennt af opinberum stofnunum en ekki ýtt út á jaðarinn.

„Þegar við sóttum um fæðingarorlof rákumst við á það að ég þurfti að sækja um sem faðir sonar míns. Okkur var sagt að við gætum bara strikað yfir faðir og skrifað eitthvað annað í staðinn, en við sættum okkur ekki við það," segir Sigríður Droplaug Jónsdóttir, sem eignaðist son árið 2010 með eiginkonu sinni Elínu Júlíönu Sveinsdóttur.

„Samkynhneigðir foreldrar eiga að fá sömu meðferð og aðrir foreldrar í kerfinu. Það er bara réttur okkar. Við getum prófað að snúa þessu aðeins: Hugsaðu þér ef það væri bara miðað við karlkyn og konur þyrftu alltaf að strika yfir þar sem stæði karl og skrifa kona í staðinn. Ég held það myndi enginn sætta sig við það. Það sjá allir hvað það er fáránlegt."

Sveitarfélögin spyrja um móður og föður

Sigríður og Elín stóðu í nokkru stappi við Vinnumálastofnun á þeim tíma og fengu sér lögfræðing til að ganga í málið, sem fór á endanum svo að félagsmálaráðuneytið gaf fyrirmæli um að eyðublöðunum skyldi breytt. Samkynhneigðir foreldrar reka sig þó enn víða á það sama. Þegar sótt er um leikskólavist er t.a.m. víða ekki gert ráð fyrir því að barn geti átt tvær mæður eða tvo feður.

Af 10 stærstu sveitarfélögum landsins virðast í fljótu bragði aðeins vera fjögur sem hafa uppfært eyðublöðin í takt við samfélagið. Reykjavík, Kópavogur, Akureyri og Fjarðabyggð setja umsóknir um leikskólavist þannig fram að foreldrar skrá sig sem Foreldri/forráðamann 1 og Foreldri/forráðamann 2. Hjá hinum stóru sveitarfélögunum eru umsóknir með þeim hætti að skrá þarf móður og föður. Í sumum tilfellum er að auki rammi fyrir „nafn forráðamanns ef annað en móðir eða faðir", en það á ekki við um fjölskyldu þar sem báðir forráðamenn eru sannarlega foreldrar.

Sprenging síðasta áratug

Guðrún Óskarsdóttir, stofnandi Félags hinsegin foreldra, segir mikilvægt að þjóðfélagið mótist eftir því hvernig hlutirnir eru í raun. Samkynhneigðum foreldrum hafi fjölgað mjög á síðustu 10 árum, ekki síst eftir að lesbíum varð heimilt með lögum að gangast undir tæknifrjóvgun á Íslandi árið 2006.

„Samkynhneigðir foreldrar eru alveg rosalega margir og þeim er alltaf að fjölga. Og þótt sumum finnist þetta kannski vera smáatriði þá skiptir formið máli. Mér finnst heppilegast að skrifa „foreldri eða forráðamaður" vegna þess að barn getur líka verið í þeirri stöðu að eiga ekki foreldra. Það getur skipt börnin alveg ofboðslega miklu máli að þurfa ekki stöðugt að vera að útskýra og upplifa sig sem öðru vísi."

Yfirleitt jákvæð viðbrögð

Ekki ætti að vera miklum vandkvæðum bundið að breyta einföldu orðalagi á umsóknareyðublaði, enda eru þau flest á tölvutæku formi og prentuð út jafnóðum svo það er ekki eins og fyrst þurfi að klára upplagið. Jákvæðu fréttirnar eru þær að Guðrún segist yfirleitt fá mjög jákvæð viðbrögð þegar bent er á það sem betur mætti fara. Oftast virði vera um athugunarleysi að ræða. 

„Mér finnst yfirleitt best að benda bara vinsamlega á að þetta form virki ekki og skrifa inn hvernig mér finnst að þetta ætti að vera. Þetta þarf ekki að vera flókið, en ef maður kemur ekki með lausnir veit fólk oft ekki hvað það á að gera eða áttar sig ekki á því og þess vegna finnst mér alltaf best að hjálpa til. Yfirleitt finnst mér tekið tillit til þess."

Sigríður segir svipaða sögu. „Ég held að skilningur sé að aukast mikið. Samkynhneigðir foreldrar eru alltaf að verða fleiri og sýnilegri og þá verður fólk meðvitaðra um að það eru aðrar fjölskyldugerðir til og við því þurfi að bregðast. Það eru margar baráttur sem samkynhneigðir ganga í gegnum og þótt mörgum finnist þetta lítilvægt þá skiptir það samt máli. Þetta er ákveðin viðurkenning á okkar fjölskyldugerð."

Stolt fjölskylda í gönguhópi Félags samkynhneigðra foreldra.
Stolt fjölskylda í gönguhópi Félags samkynhneigðra foreldra. Mbl.is/Júlíus Sigurjónsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert