Tugmilljarðar til baka

Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis fundaði fljótlega í kjölfar hæstaréttardómsins í …
Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis fundaði fljótlega í kjölfar hæstaréttardómsins í gær. mbl.is/Golli

Ljóst er að þeir sem tóku gengistryggð lán og greiddu þau upp muni fá endurgreidda tugi milljarða króna en mikil óvissa ríkir um það hve víðtæk áhrifin af vaxtadómi Hæstaréttar í gær verða.

Bankastjóri Landsbankans, Steinþór Pálsson, segir að ljóst sé að endurreikna verði öll gengislán bankans í kjölfar dómsins. Fram kom í yfirlýsingu frá Íslandsbanka í gær að hann myndi fara vandlega yfir dóm Hæstaréttar og meta áhrif hans en engin gengistryggð lán væru í tryggingasafni sértryggðra skuldabréfa bankans. Miðað við þá túlkun dómsins, sem talin væri bankanum mest í óhag, þá verði eiginfjárhlutfall áfram yfir þeim lágmörkum sem FME setur.

Arion banki sagði í yfirlýsingu að ekki lægi fyrir hvert fordæmisgildi dómsins yrði gagnvart þeim gengistryggðu lánum sem Arion banki hefur endurreiknað. En fjárhagur bankans yrði eftir sem áður mjög traustur.

Í umfjöllun um dóminn og afleiðingar hans í Morgunblaðinu í dag segir Gunnar Andersen, yfirmaður Fjármálaeftirlitsins, að bankarnir eigi vel að geta ráðið við afleiðingar dómsins. Hann bætir við að hann telji þetta ekki vera neitt sem ógni fjármálastöðugleika í landinu.

Bankarnir munu ekki eiga endurkröfurétt á hendur þrotabúum gömlu bankanna, frestur til kröfulýsinga er fyrndur. Þegar ríkisstjórnin samdi við erlenda kröfuhafa um að þeir yfirtækju þrotabúin var ekki settur fyrirvari um að semja mætti á ný ef dómar yrðu til að breyta forsendum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka