Dómur yfir Baldri staðfestur

Sigríður Friðjónsdóttir, ríkissaksóknari, Baldur Guðlaugsson og Karl Axelsson í Hæstarétti.
Sigríður Friðjónsdóttir, ríkissaksóknari, Baldur Guðlaugsson og Karl Axelsson í Hæstarétti. mynd/Pressphotos.biz

Hæstiréttur hefur staðfest tveggja ára fangelsisdóm yfir Baldri Guðlaugssyni, fyrrverandi ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu, vegna innherjasvika og brota í opinberu starfi. Einn hæstaréttardómari, Ólafur Börkur Þorvaldsson, skilaði séráliti og vildi láta vísa málinu frá.

Baldur var ákærður fyrir innherjasvik og brot í opinberu starfi þegar hann seldi hlutabréf í Landsbankanum 17. og 18. september 2008. Baldur var þá ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu og sat í samráðshópi íslenskra stjórnvalda um fjármálastöðugleika.

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu, að Baldur hefði búið yfir innherjaupplýsingum þegar hann seldi hlutabréf sín í Landsbankanum, og hefði því verið innherji í skilningi laga um verðbréfaviðskipti og brotið gegn þeim lögum. Dómur Hæstaréttar hefur ekki verið birtur en dómsorðið var lesið upp kl. 13.30 í dag.

Þá er söluandvirði hlutabréfa í Landsbankanum, sem Baldur seldi, gert upptækt en um var að ræða 192 milljónir króna.

Karl Axelsson, verjandi Baldurs Guðlaugssonar, fór fram á það fyrir Hæstarétti að málinu yrði vísað frá dómi. Sagði hann að engin ný gögn hefðu verið í málinu þegar ákveðið var að hefja rannsókn að nýju, eftir að Fjármálaeftirlitið felldi málið fyrst niður. Því væri um að ræða endurtekna málsmeðferð sem væri í andstöðu við ákvæði mannréttindasáttamála Evrópu.

Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari fór hins vegar fram á það að refsing yfir Baldri yrði þyngd og benti á að refsiramminn leyfði allt að níu ára fangelsi.

Baldur Guðlaugsson
Baldur Guðlaugsson mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka