Hagsmunasamtök heimilanna (HH) fagna niðurstöðu Hæstaréttar í máli nr 600/2011 15. febrúar 2012. Hæstiréttur Íslands hefur nú staðfest réttmæti málflutnings HH um ólögmæti afturvirkrar lagasetningar í sambærilegum málum, segir í tilkynningu.
Í tilkynningunni segir ennfremur að allir sjö dómarar Hæstaréttar hafi verið sammála um þá meginreglu að lög gildi ekki afturvirkt. Jafnframt úrskurði Hæstiréttur um að kvittanir hafi fullnaðargildi og vöxtum af greiddum kröfum því ekki haggað með íþyngjandi hætti.
Eftirlit með endurútreikningum
„Eðlilegast væri að gengisbundin lán héldu þeim vöxtum sem voru á þeim í upphafi, en þó hefur ekki verið dæmt um hvort vextir myndu falla niður í tilfelli þeirra vaxta sem bundnir eru við gengi gjaldmiðla,“ segir í tilkynningu samtakann. „Við teljum engar forsendur fyrir því að hækka vextina. HH vilja árétta að Hæstiréttur hefur einungis dæmt um eina tegund samningsvaxta, en gengistryggðir lánasamningar báru ekki allir samskonar samningsvexti. Samkvæmt dómnum skal lántakinn þ.e. veikari aðili samningsins, njóta vafans. Það ætti að vera útgangspunktur allra ákvarðana héðan í frá þ.m.t. í útreikningum á afborgunum þar til óvissu hefur verið eytt.“
Þá segir í tilkynningunni: „Þegar velt er fyrir sér ábyrgð á því ómælda tjóni sem lántakendur hafa orðið fyrir ber að spyrja um ábyrgð og hverjir ætli sér að axla hana. Ábyrgðina telja HH að bankastjórnendur beri og hafa nú lagt fram kæru á næstum allar stjórnir og bankastjóra á árabilinu 2001-2012 fyrir að veita gengistryggð lán og innheimta með ólöglegum hætti.“