Ríkissjóður er búinn að verja 500 milljónum í gerð rammaáætlunar um vernd og orkunýtingu náttúrusvæða. Þessi vinna hefur staðið frá árinu 1999. Þetta kom fram í ræðu sem Oddný Harðardóttir, starfandi iðnaðarráðherra flutti á aðalfundi Samorku í dag.
Þessi upphæð, 500 milljónir, er á verðlagi hvers árs. Þá er ótalinn kostnaður við rannsóknir sem framkvæmdar hafa verið af orkufyrirtækjunum.
„Ég mun ekki upplýsa hér og nú hvernig einstökum svæðum verður skipað í verndar-, nýtingar- eða biðflokk í þeirri tillögu til þingsályktunar sem lögð verður fram á Alþingi. Ég vil hins vegar vekja athygli ykkar á gjörbreyttri stöðu orkufyrirtækjanna þegar rammaáætlun hefur verið samþykkt. Hingað til hafa þau verið í þeirri stöðu að þurfa fyrst að rannsaka viðkomandi virkjunarkost og finna kaupendur að orkunni - og síðan að bíða eftir ákvörðun stjórnvalda um það hvort fara mætti í virkjunarframkvæmdir – með tilheyrandi óvissu og bið. Með rammaáætlun og þeirri röðun sem þar á sér stað liggja hlutirnir skýrir og klárir fyrir. Hvar má virkja – var skal verndað – og hvar er meiri rannsókna þörf. Og samkvæmt lögum ber sveitarfélögum að setja þá virkjanakosti sem settir eru í nýtingarflokk inn á skipulag sitt sem slíka,“ sagði Oddný.
Oddný sagðist taka undir þá skoðun að okkur farnist best ef okkur tekst að fjölga orkukaupendum og að flóra þeirra verði sem fjölbreyttust. Að orkusölusamningar verði margir og þeir renni út á mismunandi tímum. „Áliðnaðurinn hefur myndað hér grunn að öflugu orkusamfélagi sem við getum byggt á. Tilkoma álþynnuverksmiðju Becromal á Akureyri og fyrirætlanir þeirra um frekari stækkanir og nýjustu fréttir af gagnaversiðnaðinum eru góð vísbending í þessa átt. Vissulega er það svo að verkefnaþróun þeirrar gerðar sem hér um ræðir er oft flókin og áhættusöm og ekki víst að öll verkefni fari í gang á tilsettum tíma. En það er von okkar að fljótlega bætist í flóruna kísilver og etv. kísilhreinsun, stór gróðurhús og jafnvel vísir að efnaiðnaði.“
Í drögum að orkustefnu sem ríkisstjórnin vinnur að er mörkuð sú stefna að leitað skuli allra leiða til að auka hlut endurnýjanlegrar orku á kostnað jarðefnaeldsneytis. „Í dag nær hluti endurnýjanlegrar orku í samgöngum ekki einu prósenti. Árið 2020 stefnum við að því að þetta hlutfall verði komið í 10%. Og vel að merkja – það eru aðeins átta ár til stefnu!“ sagði Oddný.