Engin áform eru hjá bæjarstjórnum Akureyrar, Kópavogs eða Reykjanesbæjar um að setja reglur um samskipti trúfélaga og skóla líkt og Reykjavíkurborg samþykkti í fyrra.
Drög að slíkum reglum verða líklega lögð fyrir á fundi fræðsluráðs Hafnafjarðar á mánudag.
Að sögn Gylfa Jóns Gylfasonar, fræðslustjóra Reykjanesbæjar, hefur ekki verið rætt um að setja reglur af þessu tagi í bænum. Það sé líklega eitthvað um það að prestar komi inn í skólana og að börn fari í kirkju á skólatíma en ekki hafi verið tekin nein ákvörðun um að banna slíkt.
Hlín Bolladóttir, formaður samfélags- og mannréttindaráðs Akureyrar, segir að slíkar reglur hafi ekki verið ræddar þar. Samfélagið hafi ekki kallað eftir þeim og það virðist ríkja sátt og samlyndi um þessi mál.