Þyrla Landhelgisgæslunnar lagði af stað frá Reykjavík fyrir stundu en tilkynnt hefur verið um þrjá menn í sjálfheldu vestur af Eyjafjallajökli. Samkvæmt upplýsingum frá Gæslunni eru mennirnir staðsettir vestur af Grýtutindum. Þeir eru sagðir ómeiddir.
Þyrla Gæslunnar kemur að jöklinum eftir um 10 mínútur. Á svæðinu gengur á með skafrenningi og eru mennirnir sagðir kaldir. Þá er símasamband slæmt á svæðinu.
Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni eru mennirnir, einn Íslendingur og tveir útlendingar, sagðir vera vel búnir og hefur fjölmennt lið björgunarsveita þegar verið sent á staðinn. Þær sveitir koma m.a. úr Rangárvallasýslu en einnig hafa undanfarar af höfuðborgarsvæðinu verið sendir á staðinn. Til stóð að þeir færu með þyrlu Landhelgisgæslunnar, það hefur þó ekki fengist staðfest.