Gunnar Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, lét þess ekki getið þegar hann svaraði árið 2001 bréfi fyrir hönd Landsbankans, að bankinn ræki tvö aflandsfélög á Guernsey. Þetta gera Ásbjörn Björnsson, löggiltur endurskoðandi, og Ástráður Haraldsson hæstaréttarlögmaður athugasemdir við.
Gunnar Andersen fékk í gær bréf frá stjórn Fjármálaeftirlitsins þar sem segir að honum verði sagt upp störfum. Hann fær frest fram á mánudag að svara bréfinu.
Í yfirlýsingu sem stjórn FME sendi frá sér í dag segir að opinber umfjöllun nú um tiltekið ferli, sem er í gangi innan FME, sé ekki að frumkvæði stjórnar FME. Það valdi vonbrigðum að málið sé gert opinbert áður en niðurstaða er fengin. Að sjálfsögðu sé eðlilegt að ákvarðanir, sem teknar kunna að verða, séu fyrst kynntar starfsfólki FME og síðan almenningi.
Andri Árnason hrl. var á sínum tíma fenginn til að meta hæfi Gunnars, en niðurstaða hans var að Gunnar væri hæfur til starfsins. Eftir að gagnrýni kom fram í Kastljósi á störf Gunnars fyrir meira en 10 árum þegar hann var starfsmaður Landsbankans fékk stjórn FME Andra til að fara aftur yfir málið. Niðurstaða hans var óbreytt um að hann væri hæfur til að vera forstjóri FME. Stjórnin fól í framhaldinu Ásbirni Björnssyni og Ástráði Haraldssyni að fara yfir álit Andra og gögn málsins og gefa sjálfstætt álit á hæfi forstjóra FME. Stjórn FME segir að umfjöllun stjórnar um málið sé ekki lokið.
Í álitinu segir að þeir séu „sammála því mati Andra að ekkert hefur komið fram sem sýnir að Gunnar Þ. Andersen hafi í störfum sínum í þágu Landsbanka Íslands á árunum 2001-2002 gerst sekur um brot sem talist gætu geta leitt til þess að hann yrði látinn sæta refsiábyrgð.“
Þeir telja engu að síður ástæðu til þess að fjalla nánar um ákveðið atvik í greinargerð Andra. Þeir benda á að hinn 26. júní 2001 undirritaði Gunnar Þ. Andersen fyrir hönd Landsbankans bréf til Fjármálaeftirlitsins þar sem bankinn svarar fyrirspurn stofnunarinnar frá 29. maí sama ár um erlenda starfsemi bankans „án þess að láta þar getið um lögaðila sem bersýnilega voru hluti af erlendri starfsemi bankans á þessum tíma“.
Þar er átt við félögin LB Holding Ltd. og NBI Holdings Ltd., sem skráð voru á Guernsey. Andri hafði komist að þeirri niðurstöðu að ekki hefði verið nauðsynlegt fyrir Gunnar að geta um þessi félög í svarbréfinu til FME. Ásbjörn og Ástráður vitna hins vegar í dóm Hæstaréttar frá síðasta ári þar sem þessi félög Landsbankans komu við sögu. Segir í dómnum „að leggja [verði] til grundvallar að sú lýsing í ákæru sé rétt að NBI Holdings Ltd. hafi verið félag á vegum Landsbanka Íslands hf.“.
Fram kemur í greinargerðinni að Gunnar hafi gefið þær skýringar á þessu að í maí eða júní 2001 hafi verið haldinn fundur í Kauphöllinni að frumkvæði Landsbankans. Fundarefnið hafi verið hvernig svarinu til FME skyldi háttað. Niðurstaða fundarins hafi verið sú að þar sem hin umræddu félög hafi verið í eigu hins erlenda sjálfseignarsjóðs ætti ekki að tilkynna þau til FME.
„Af þessu tilefni var leitað upplýsinga um það bæði frá Kauphöllinni og FME hvort til væri hjá þeim fundargerð af slíkum fundi eða gögn um efni eða niðurstöður slíks fundar. Hvorki Kauphöllin né FME fundu nein gögn um fundinn í sínum fórum,“ segir í greinargerð Ásbjarnar og Ástráðs.
„Við teljum í ljósi framangreinds að fram hafi komið upplýsingar um atvik sem er til þess fallið að draga megi í efa trúverðugleika forstjóra FME en viljum ítreka að ekkert í okkar skoðun á þeim gögnum sem fyrir liggja tekur af tvímæli um að um lögbrot hafi verið að ræða. Hér er frekar um að ræða huglæga niðurstöðu, byggða á gögnum málsins og þeirri opinberu umfjöllun sem hefur átt sér stað og ekki verður litið framhjá þrátt fyrir þann lagaramma sem til hliðsjónar er,“ segir í greinargerðinni.