„Við erum að stíla inn á hágæðaveitingastaði til að byrja með, og þá sérstöðu sem íslenskt lambakjöt hefur á markaði,“ segir Steinþór Skúlason, forstjóri SS, um markaðssetningu íslensks lambakjöts á Rússlandsmarkað.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að reiknað sé með að fyrstu gámarnir fari til Moskvu með vorinu og stefnt er að því að innan þriggja ára verði hægt að selja þangað 200-300 tonn af lambakjöti við góðu verði.
SS og kjötafurðastöð KS vinna saman að markaðsátakinu í Rússlandi og hafa notið aðstoðar íslenska sendiráðsins við kynninguna.
Stærsta matvælasýning Rússlands hefur staðið yfir í Moskvu í vikunni og taka SS og KS þátt í henni í annað sinn. Héldu fyrirtækin veislu fyrir 50-60 líklega kaupendur og tengiliði. Lambakjöt og fiskmeti sem Friðrik Sigurðsson matreiðslumeistari eldaði fékk góðar viðtökur.