Verðtryggð lán heimilanna stóðu alls í um 1.200 milljörðum um áramót, skv. tölum frá Seðlabanka Íslands. Þar af áttu Íbúðalánasjóður og lífeyrissjóðirnir um 830 milljarða.
Í umfjöllun um þessi mál í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að niðurfærsla höfuðstóls verðtryggðra lána getur kostað Íbúðalánasjóð um 200 milljarða verði til dæmis farin sú leið að lækka þau um 30%, en ekkert er ákveðið þar um.
Að mati Helga Hjörvar, formanns efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, er æskilegast að það væri hægt með almennum hætti að koma til móts við þá sem tóku verðtryggð lán.
Niðurfærsla verðtryggðra íbúðalána er möguleg að sögn Sigurðar Erlingssonar, framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs, en ekki verði farið í hana nema með aðkomu ríkisins.Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, segir slíka niðurfærslu ekki til umræðu enda sé sjóðunum ekki heimilt að gefa eftir eignir.