Vandasamt að finna forstjóra

Gunnar Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins.
Gunnar Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins. Ljósmynd/Ragnar Th. Sigurðsson

„Ekki er örgrannt um að sú hugsun leiti á að vandasamt kynni að verða að finna til starfans einstakling sem án athugasemda stenst skoðun af þessum toga.“ Þetta segja Ásbjörn Björnsson, löggiltur endurskoðandi, og Ástráður Haraldsson hæstaréttarlögmaður, sem unnu greinargerð fyrir stjórn Fjármálaeftirlitsins um hæfi Gunnars Andersens forstjóra.

„Ljóst má vera að hver sá sem valinn væri til að gegna starfi forstjóra Fjármálaeftirlitsins þyrfti að hafa til að bera starfsreynslu og lífsreynslu sem dugar til að geta valdið svo mikilsverðu og vandasömu starfi. Þar á meðal þarf slíkur einstaklingur að hafa til að bera haldgóða þekkingu á, og reynslu af, starfsemi fjármálafyrirtækja. Ljóst er einnig að hver sá sem stendur að umfangsmikilli atvinnustarfsemi og flóknum viðskiptafléttum kann á löngum ferli að tengjast einstökum atvikum sem eftirá séð kunna að orka tvímælis. Rannsóknir um hæfi Gunnars Þ. Andersens til að gegna starfi forstjóra Fjármálaeftirlitsins hafa verið ítarlegar og staðið um langa hríð,“ segir í greinargerðinni.

Vék sæti í málum sem varðaði gamla Landsbankans

Gunnar Andersen var starfsmaður Landsbankans um síðustu aldamót, en hætti störfum þegar Björgólfsfeðgar eignuðust ráðandi hlut í bankanum.

Fram kemur í greinargerðinni að Gunnar sagðist víkja sæti í öllum rannsóknarmálum er varða gamla Landsbankann. Þessi ákvörðun tengist á engan hátt málum er varða nýja Landsbankann (eða NBI hf.) Fram kom að þessi ákvörðun snerti í reynd afar fá mál sem stofnunin hefur til úrlausnar og veldur því örsjaldan vanhæfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka