Ekki ráðherra að ráða forstjóra

Steingrímur J. Sigfússon efnahags- og viðskiptaráðherra segir það ekki hlutverk ráðuneytisins að hlutast til um það hver taki við embætti sem forstjóri Fjármálaeftirlitsins í stað Gunnars Andersen. 

„Fjármálaeftirlitið er lögum samkvæmt sjálfstæð stofnun og því algjörlega í höndum stjórnar stofnunarinnar að ráða nýjan forstjóra.“

Aðspurður hvort hann hafi vitað af fyrirhugaðri uppsögn segir Steingrímur að ráðuneytið sé látið vita af málefnum stofnunarinnar en ekki í þeim tilgangi að hlutast til um hennar mál heldur til þess að vera með á nótunum og vera upplýst um stöðu mála.

„Það er mikilvægt að truflun og röskun á störfum Fjármálaeftirlitsins sé sem minnst og samfella og festa í störfum stofnunarinnar verði áfram. Stjórn Fjármálaeftirlitsins mun sjá um að svo sé og ráðuneytið fylgist auðvitað með málinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert