Loðnuvertíðin byrjar af krafti

Búið er að frysta um 8.000 tonn af loðnu í nýju frystihúsi HB Granda á Vopnafirði. Um 60 manns vinna þar við frystingu. „Það er ágætisgangur á þessu. Veður hefur truflað örlítið en í heild hafa veiðarnar gengið vel,“ segir Magnús Þór Róbertsson vinnslustjóri.

Að sögn Magnúsar er árið í ár talsvert betra en árið á undan. Kvótinn er nú 590 þúsund tonn en í fyrra var hann 320 þúsund tonn og því er um mikla aukningu að ræða. Magnús segir loðnuna aðallega selda til Austur-Evrópulanda á borð við Rússland, Úkraínu og Hvíta-Rússland.

Loðnuveiðar hófust á þessari vertíð í byrjun janúar og hefur aflinn verið góður miðað við fyrri ár. Elías Kristinsson, annar stýrimaður um borð í loðnuveiðiskipinu Ingunni AK, er sáttur við afraksturinn. „Það er fínasta veiði, við getum stoppað fjóra til fimm tíma á miðunum núna.“ Skipið landar um 1100-1200 tonnum eftir hverja veiðiferð.

Loðnan er komin vestur fyrir Dyrhólaey á hraðri leið í vestanátt, en að sögn Elíasar elta þeir loðnuna og reyna að fiska fremst í göngunni því þar er besta og stærsta loðnan.

Sindri Viðarsson, sviðsstjóri uppsjávarfisks hjá Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum, tekur undir að veiðarnar hafi gengið vel. Hann segir að líklegt sé að þær haldi áfram eitthvað fram í mars. „Fiskurinn er að vísu einhverjum dögum á eftir í fyllingu og þroska en að öðru leyti svipar aflanum til fyrri ára.“ Hjá þeim hafa veiðst 35 þúsund tonn frá byrjun tímabils.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert