Snjóar á fjallvegum

mbl.is/Ómar

Gera má ráð fyrir snjókomu á fjallvegum í dag, fyrst um vestanvert landið, en síðdegis um mestallt land. Snjómuggan verður ofan 200-300 metra, en yfirleitt slydda eða rigning á láglendi. Á Hellisheiði nær að hlána um tíma undir kvöldið. Strekkingsvindur og fjúk framan af degi, en síðan víðast fremur hægur vindur.

Í tilkynningu frá Vegagerðinni segir að það séu hálkublettir á Hellisheiði og í Þrengslum en á Suðurlandi er víðast hvar hálka eða snjór.

Hálkublettir eru á nokkrum leiðum á Reykjanesi og snjór á Suðurstrandarvegi.

Á Vesturlandi er hálka, hálkublettir eða snjór á flestum leiðum. Ófært  er á Fróðárheiði, hálka og éljagangur er á Bröttubrekku og snjór og skafrenningur á Holtavörðuheiði.

Á Vestfjörðum er ófært á Klettshálsi. Hálka er á Steingrímsfjarðarheiði og hálka og skafrenningur á Þröskuldum. Þæfingur er á Ennishálsi og Stikuhálsi. Hálka, hálkublettir eða snjór er á öðrum leiðum.

Á Norðurlandi vestra eru hálkublettir og éljagangur í Húnavatnssýslum en snjór og éljagangur í Skagafirði. Snjór og snjókoma er á Öxnadalsheiði.

Á Norðurlandi eystra er hálka og éljagangur í Eyjafirði en hálkublettir á flestum leiðum.

Á Austurlandi er snjór eða hálkublettir á flestum leiðum, þó er hálka á Fagradal og á Oddsskarði og þungfært á Breiðdalsheiði.

Á Suðausturlandi er víðast hvar hálka eða hálkublettir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert